Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, segist hafa reitt leiðsögumann til reiði á fimmtudag er hún leiðrétti frásögn hans um sjálfstæði Íslands. Leiðsögumaðurinn hafi haldið því fram að Íslendingar hafi nýtt tækifærið eftir að Danmörk var hernumin í seinni heimsstyrjöldinni og að Danakonungur hafi ekki einu sinni uppgötvað þetta fyrr en ári síðar.
Una skrifaði færslu um málið á Facebook í gærkvöldi:
„Í fyrradag kom ég að ferðamannahópi á Austurvelli rétt í þeirri andrá þegar leiðsögumaðurinn var að ljúka við þá lygasögu sem vinsælt er að segja erlendum ferðamönnum: að íslenska þjóðin hefði orðið sjálfstæð af því að Þjóðverjar hernámu Danmörku á stríðsárunum, Íslendingar hefðu þá notað tækifærið og lýst yfir sjálfstæði. „Og kóngurinn komst ekki einu sinni að þessu fyrr en ári seinna,“ sagði unga stúlkan sem þarna var leiðsögumaður.
Ég kvaddi mér hljóðs, í óþökk leiðsögumannsins, og sagði ferðamönnunum að þetta væri ekki rétt, stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefði verið afleiðing af fullveldissamningnum sem Íslendingar gerðu við Dani árið 1918, en samkvæmt honum mátti slíta tengslum landanna 25 árum síðar ef mikill meirihluti fengist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tók líka fram að auðvitað hefði Kristján X Danakonungur vitað af þessu, hann hefði meira að segja sent skeyti sem lesið var á lýðveldishátíðinni 17. júní 1944.
Svo gekk ég burt, en unga stúlkan var bálreið og öskraði á eftir mér:
„Má aldrei hafa neitt gaman?!!!“
Hún virtist sem sagt líta á sig sem eins konar skemmtikraft og þar sem lygasögurnar gátu komið ferðamönnunum til að hlæja fannst henni sjálfsagt að taka þær fram yfir sannleikann.“
Frásögn Unu hefur vakið athygli en fjölmiðlamaðurinn Bogi Ágústsson deilir henni meðal annars í hóp sem nefnist Bakland ferðaþjónustunnar þar sem hann segist ekki trúa því að bull sem þetta sé kennt í Leiðsöguskólanum. Þetta sé þó ekki í fyrsta sinn sem hann heyri af leiðsögumanni sem fer með fleipur.
Ekki eru þó allir sammála Unu og Boga. Til dæmis bendir einn á að Danir hafi ekki getað séð um utanríkismál Íslendinga á meðan á hernámi Þjóðverja stóð. Tvennum sögum fari af því hversu kátir Danir voru með viðskilnað Íslands en þeir hafi meðal annars breytt lögum í kjölfarið svo það yrði flóknara fyrir Færeyinga og Grænlendinga að leika sama leikinn.
Heimir Hannesson samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar segir að mögulega hafi téður leiðsögumaður verið að einfalda söguna aðeins, en þó megi hafa í huga að Færeyingar kusu ári eftir lok heimsstyrjaldarinnar um að lýsa yfir sjálfstæði. Danakonungur brást við með því að ógilda kosningarnar, rjúfa þing og boða til kosninga aftur.
„Þó frásögn leiðsögumannsins sé einföldun, er hin söguskýringin líka mikið einfölduð enda skautar hún alveg yfir augljósa tregðu Dana við breytingar á sambandi þeirra við nýlendur í Atlantshafi.“
Aðrir benda á að leiðsögumenn þurfi fyrst og fremst að skemmta kúnnum sínum frekar en að fara með þurran sögufyrirlestur sem svæfir.
Annar bendir á að það sé hreint ótrúleg tilviljun að Ísland hafi stigið tvö stór skref, fullveldið 1918 og sjálfstæðið 1944, á stríðstímum.
„Augljóst að við nýttum okkar ýmsa veikleika okkur til framdráttar í leiðinni að fullveldi.“
Enn aðrir benda á að vissulega eigi leiðsögumenn að fara með rétt mál en það sé óþarfi að leiðrétta þá fyrir framan ferðamennina og gera lítið úr þeim. Slíkt sé engum til gagns. Það sé hægt að leiðrétta undir fjögur augu. Einn lýsir eigin reynslu og segist sjálfur verða lítið fyrir leiðréttingum í leiðsögustarfi því hann er miðaldra íslenskur karlmaður. Leiðsögumenn af erlendum uppruna eða þeir sem eru kvenkyns, einkum ungar konur, upplifi þó annað.
Á Facebook-vegg Unu má einnig finna skiptar skoðanir. Sumir eru á því að leiðsögumaðurinn hafi farið með einfaldað en rétt mál. Una tekur þó ekki undir með því.
„Það er ekki rétt að sjálfstæði Íslands hafi verið afleiðing af hernámi Þjóðverja á Danmörku. Ísland hefði orðið sjálfstætt þótt ekkert stríð hefði geisað, það stóð einfaldlega í samningnum frá 1918. Þess vegna er ekki „bæði rétt“, þetta er einfaldlega rangt.“
Bogi tekur fram að Ísland hafi í raun orðið sjálfstætt og fullvalda ríki þann 1. desember árið 1918. Hins vegar breyttist það úr konungsríki yfir í lýðveldið árið 1944. Sömuleiðis hafi Ísland aldrei verið dönsk nýlenda.
Stjórnmálafræðingurinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson segir það vel gert af Unu að hafa leiðrétt leiðsögumanninn.
Á vef Stjórnarráðsins er leiðin að sjálfstæði Íslands rakin og kemur þar fram að árið 1918 hafi samningar náðst um fullveldi. Þar með varð Ísland ríki út af fyrir sig, konungsríkið Ísland, og hafði samningsbundinn rétt til að segja upp sambandinu við Danmörku að 25 árum liðnum. Þessu var fylgt eftir árið 1944 með því að slíta sambandinu við Danmörku árið 1944.