Umdeildur trúarlegur predikari að nafni Joan Hunter er á leið til landsins í september til þess að halda svokallaðan „lækningaskóla“. Í umsögnum um fyrirlestra og námskeið Joan er hún sögð meðal annars lofa fólki að það hækki og að það geti eignast börn.
Joan Hunter er bandarískur predikari sem rekur Joan Hunter Ministries í Texas fylki sem starfað hefur í um 45 ár. Hún kemur til landsins og heldur svokallaðan lækningaskóla í Reykjavík dagana 18. til 21. september næstkomandi.
Samanstendur dagskráin bæði af skólanum sjálfum og „lækninga og kraftaverka þjónustu.“ Í auglýsingu segir að kvöldsamkomurnar séu ókeypis fyrir alla.
En þeir sem ætla að taka þátt í lækningaskólanum verða að kaupa miða, lesa þrjár bækur á undan og horfa á 12 klukkustundir af DVD efni eða netstreymi.
Miðaverðið er um 35 þúsund krónur en tæplega 50 þúsund ef viðkomandi vill verða vígður. Bækurnar eru ekki innifaldar og þær þarf að kaupa sér.
Segir að í námskeiðinu fái fólk aðgang að fróðleik sem geti breytt lífi þess og annarra að eilífu.
„Joan mun deila lyklum að lækningu á fimm sviðum – á líkama, huga, sál, anda og fjármálum. Allar þær innsýnir sem hún mun deila hafa verið sannaðar sem lyklar að byltingarkenndum árangri sem hún sjálf hefur kynnst í gegnum eigin ferðalag lækninga,“ segir í auglýsingunni.
En eins og margir aðrir predikarar sem lofa lækningum á ýmsum sviðum þá er Joan Hunter alls ekki óumdeild. Um hana og hennar aðferðir eru til ýmsar umsagnir á netinu, þar á meðal frá fólki sem trúði dyggilega á boðskap hennar en varð fyrir vonbrigðum.
Einn af þeim, Kanadískur maður að nafni Glenn, sem lýsir því þegar hann var að yfirgefa sína eigin kirkju, sem kallast NAR.
„Síðasta hálmstráið var þegar kirkjan flutti inn trúarlækni að nafni Joan Hunter. Í tilbeiðslunni skipaði predikarinn heilögum anda að stíga niður. Joan Hunter var að selja hluti til að hjálpa fólki að eignast börn, að fá lækningu og svo framvegis. Mér fannst hún vera hrappur og sá að kirkjan sem ég var meðlimur í fannst ekkert athugavert við þetta,“ sagði Glenn. „Áhorfendur Joan átu úr lófanum á henni, opnuðu sig og hældu henni. Hins vegar sá ég hrapp sem var að græða peninga og særa fólk. Ég var reiður og þetta var síðasti sunnudagurinn sem ég fór þangað.“
Annar bloggari, W. McGrew að nafni, lýsir samkomu Joan Hunter í Houston borg í Texas árið 2011.
„Hún var fremst á sviðinu að tala og ég var um 10 fetum (3 metrum) frá henni. Hún spurði hvort einhver vildi lækningabæn. Ein kona sagði já og steig fram. Þegar hún kom upp að Joan sagði hún: „Fyrst við erum hér, getur þú beðið guð að gera mig hávaxnari?“ Joan sagði já og hélt áfram að biðja fyrir henni,“ segir McGrew.
Segir hann að þá hafi fólk byrjað að æpa.
„Sumir í hópnum byrjuðu að hrópa að þeir gætu séð konuna hækka. Joan tilkynnti „Hún hefur hækkað um tvær tommur!“ (5 sentimetra)“, segir maðurinn sem segist ekki hafa tekið eftir neinni breytingu á konunni. „Þessi kona óx ekki neitt!“ segir hann. „Hreint æði og blekkingar.“