Á meðal þeirra sem létust voru fjögur börn og í frétt CNN segir að þrjú þeirra hafi verið 2, 14 og 17 ára. Talið er að 598 sprengjudrónar hafi verið notaðir í árásunum og 31 flugskeyti. Tíu börn eru sögð hafa slasast.
Árásirnar í nótt beindust einkum að höfuðborginni Kænugarði en einnig að öðrum svæðum, að því er segir í frétt BBC.
83 ára kona lést í sprengjuárás í borginni Kherson og þá létust karl og kona, 47 og 49 ára, í árásum í þorpinu Novovorontsovka. Tveir óbreyttir borgarar létust svo í bænum Kostyantynivka.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segir að með árásunum hafi Rússar sýnt að þeir kjósi frekar að skjóta eldflaugum en að setjast við samningaborðið. „Þeir kjósa að halda áfram að drepa í stað þess að binda enda á stríðið. Rússar eru ekki enn farnir að óttast afleiðingar gjörða sinna,“ sagði forsetinn og kallaði eftir hörðum viðbrögðum frá alþjóðasamfélaginu.