Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir mál manns sem fékk nýrnabilun eftir langvarandi uppáskrift af lyfi við geðhvarfasýki. Maðurinn vann málið fyrir héraði en Landsréttur sneri niðurstöðunni við þrátt fyrir sératkvæði nýrnalæknis sem fenginn var sem meðdómandi í málinu.
Maðurinn hefur glímt við geðhvarfasjúkdóm frá unglingsárum og var fyrst lagður inn á geðdeild árið 1988. Þangað var hann ítrekað lagður inn til ársins 1992 þegar tókst að ná jafnvægi á sjúkdómsástand hans með lyfjagjöf Litarex, eða litíum.
Var hann í eftirliti á göngudeild Landspítalans árin 1996 til 2009, hjá tveimur geðlæknum. Þegar sá seinni hætti ávísaði hann stórum skammti af litíum til mannsins sem tók lyfið samkvæmt fyrirmælum.
Framan af var fylgst með nýrum mannsins en það ekki gert á árunum 2006 til 2011 þegar hann fór að finna fyrir líkamlegum einkennum og leitaði til heimilislæknis. Eftir rannsóknir kom í ljós að annað nýrað var minna en hitt og stöku cystur í báðum nýrunum. Var talið að nýrnabilunin væri vegna litíummeðferðarinnar, fyrst var skammturinn minnkaður en árið 2014 var hann tekinn af lyfinu.
Ári seinna sótti maðurinn um bætur úr sjúkratryggingu á grunni rangrar lyfjaávísanar og skorts á eftirliti með meðferðinni. Sjúkratryggingar höfnuðu hins vegar bótaskyldu og töldu að ekki yrði fundið að meðferð geðlæknisins.
Málið fór til Úskurðarnefndar velferðarmála sem úrskurðaði í ágúst árið 2017 að skilyrði bótaskyldu væru ekki til staðar. Orsök nýrnabilunarinnar hefði verið langvarandi litíummeðferð en skortur á eftirfylgni hefði ekki verið orsök þess að nýrnabilunin kom til hjá honum og fór síðan versnandi. Sögðu matsmenn að aðeins 1,5 prósent notenda litíum fengju lokastigsnýrnabilun eins og umræddur maður, sú tíðni sé bæði sjaldgæf og þungbær.
Fór maðurinn þá með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en féll frá því að eftirlitsskortur geðlæknisins hefði orsakað nýrnabilunina. En meðferðin hefði gert það og það væri ósanngjarnt að sjúklingur myndi þola það bótalaust. Hafi hann ekki geta gert ráð fyrir að verða fyrir umræddu tjóni.
Sjúkratryggingar byggðu vörn sína hins vegar á því að um væri að ræða áratuga notkun lyfsins og að málið væri fyrnt.
Héraðsdómari tók ekki undir þá vörn og dæmdi manninum í vil. Það er að honum hafi ekki verið ljóst að nýrnaskemmd hans myndi þróast út í lokastigsnýrnabilun árið 2014.
„Þegar litið er til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að lokastigsnýrnabilun sú sem stefnandi glímir við falli undir það að vera tjón sem hlýst af meðferð og að tjónið sé vegna fylgikvilla 17 sem, þegar litið er til þess hversu alvarlegt tjónið er og hversu sjaldgæft það er, sé meira en svo að sanngjarnt sé að stefnandi þoli það bótalaust, í skilningi 4. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000,“ segir í dómi héraðsdóms 18. apríl árið 2018 og Sjúkratryggingum gert að greiða manninum rúmar 12 milljónir króna í bætur ásamt vöxtum.
Þeim dómi var hins vegar snúið við í dómi Landsréttar í sumar, það er 5. júní. Tók landsréttur undir sjónarmið Sjúkratrygginga um að málið væri fyrnt.
„Að framangreindu virtu er það niðurstaða réttarins að nýrnabilun sú sem stefndi glímir við og sem ágreiningslaust er að sé afleiðing af langtímanotkun lyfsins Litarex stafi af sjaldgæfum en þekktum aukaverkunum lyfsins sem teljist til eiginleika þess. Af því leiðir að 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 stendur því í vegi að unnt sé að fallast bótaskyldu áfrýjanda gagnvart stefnda á grundvelli 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000 og verður áfrýjandi því sýknaður af öllum dómkröfum stefnda,“ segir í dóminum.
Var þetta niðurstaða tveggja dómara en Daði Helgason lyf-og nýrnalæknir var meðdómari í málinu og skilaði séráliti og sagðist ósammála fyrningu málsins og sagði nýrnabilun mannsins ekki hluta af skráðum aukaverkunum lyfsins í samræmi við skammtaráðleggingar. Gögn málsins sýni að skammtarnir hafi verið of háir. Taldi Daði að staðfesta ætti dóm héraðsdóms.
Eins og áður segir hefur Hæstiréttur samþykkt að taka málið til meðferðar. Málið kunni að vera fordæmisgefandi og mikilvægt sé að fá skýringu á lykilhugtökum.