„Nú hefst rútína á ný hjá grunnskólabörnum á landsvísu og fara næstu vikur í að koma sér inn í vinnulag vetrarins og tileinka sér þekkingu og félagsþroska ásamt því að ganga aftur inn í nærsamfélagið sitt. Fjöldi þeirra daga sem þau hafa verið í burtu frá skipulögðu skólastarfi eru um 76 talsins,“ segir hann og bendir á að íslensk börn séu tíu dögum lengur í sumarfríi en norsk börn og 20 fleiri dögum en dönsk börn.
„Rannsóknir sýna að löng sumarfrí henta fáum og hjá stórum hluta barna og unglinga einkennast þau af rútínuleysi, skorti á félagslegri örvun, minni hreyfingu og fá einhverjir nemendur takmarkaðan aðgang að góðri næringu líkt og skólamötuneytin bjóða upp á,“ segir hann.
„Flest getum við sammælst um að skólasamfélagið sé einnig mikilvægur hluti af öryggisneti barns, eitthvað sem þarf líka að setja í samhengi þegar kemur að þessu langa tímabili sem að börn og unglingar upplifa á hverju ári. Það væri hægt að fara í vegferð þar sem sumarfrí yrði stytt án þess að kennarar missi frí sem bundin eru í kjarasamningum, sem ég mun kafa dýpra í, í næstu grein um menntamál.“
Erlingur segir að skólinn skapi samfélag sem nærir, fræðir og býr til tengsl og vinskap.
„Hver dagur þar sem þetta samfélag er sett á ís getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir barn. Það er ekki sjálfsagður hlutur að börn séu skráð á námskeið alla daga í sumarfrí og hvað þá að foreldrar séu í fríi og geti haldið úti dagskrá fyrir börnin sín. Það væri nefnilega einnig í þágu atvinnulífs ef að skóladögum fjölgaði, það er mikið lagt á foreldra að þurfa að búa til dagskrá og öruggt umhverfi í kringum barn og finna börn oft fyrir því að umstangið getur verið foreldrum erfitt,“ segir hann.
Honum finnst mikilvægt að Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneytið fari í athugun á því hvort hægt sé að stytta sumarfrí barna. „Þó það væri ekki um nema tvær vikur. Þessar tvær vikur gætu skilað mjög miklu í þágu barna og velferðar því 76 dagar eru þó nokkuð margir dagar í burtu fyrir flest öll börn,“ segir hann.
„Samfélag þar sem óvissa yfir sumartímann er minni, álag á fjölskyldur er jafnara og betri stuðningur er við menntun komandi kynslóða. Höldum umræðunni um menntamál á lofti, með velferð barna að leiðarljósi.“