Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að útkallið hafi borist rétt eftir miðnætti og héldu björgunarsveitin Kyndill frá Kirkjubæjarklaustri og Stjarnan úr Skaftártungum til leitar.
Símasamband var við göngumanninn en rafhlaða síma hans var við það að tæmast. Nákvæm staðsetning fékkst hins vegar ekki, en hægt að áætla að viðkomandi væri við Úlfárdalssker sem er suður af Lakagígum. Veður á leitarsvæðinu var ágætt, en þoka var að leggjast yfir og einhver suddi.
Í tilkynningunni kemur fram að rétt upp úr klukkan 2 í nótt hafi björgunarfólk komið auga á ljóstýru og skömmu síðar hafi verið ljóst að þar væri göngumaðurinn á ferð. Klukkan 2:20 var svo maðurinn kominn í björgunarsveitarbíl.
Manninum heilsaðist vel og þáði far með björgunarsveit að bíl sínum og í kjölfarið fylgdi björgunarsveit honum að skála þar nærri. Þangað var komið rétt upp úr þrjú í nótt og björgunarfólk hélt heim á leið í kjölfarið.