Fjöldi Evrópuríkja hættir að senda póstsendingar til Bandaríkjanna vegna tolla sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sett á. Óvissan er sögð vera allt of mikil.
Í síðustu viku var greint frá því að Pósturinn hætti að senda sendingar til Bandaríkjanna. Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, sagði ekki hægt að setja 15 prósenta toll á allt vegna þess að ekki er hægt að vita hvaðan viðkomandi vara á uppruna sinn.
Íslenski Pósturinn er ekki einn um þetta. Pósturinn í Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku og Svíþjóð hafa tilkynnt að sendingar verði ekki sendar til Bandaríkjanna. Frakkar og Austurríkismenn hyggjast loka fyrir sendingarnar á mánudag og Bretar á þriðjudag.
Þá hefur DHL í Evrópu tilkynnt að fyrirtækið muni ekki flytja pakka til Bandaríkjanna.
„Lykilspurningum er ósvarað, sérstaklega varðandi hvernig tollur verður rukkaður í framtíðinni, hvaða gögn þurfi að fylgja og hvernig þau eru send til Tolla og landamærastofnunar Bandaríkjanna,“ segir í tilkynningu DHL.