Vísindamenn í Bandaríkjunum vara nú við að paracetamól – eitt mest notaða verkjalyf í heiminum – geti hugsanlega aukið líkur á því að börn fæðist með einhverfu eða athyglisbrest með ofvirkni (ADHD).
Í nýrri samantekt, sem byggir á gögnum úr 46 rannsóknum sem náðu til rúmlega 100.000 einstaklinga, kemur fram að sterkar vísbendingar séu um tengsl milli notkunar paracetamóls á meðgöngu og auknum líkum á áðurnefndum taugaþroskaröskunum. Samantektin var birt í vísindaritinu Evironmental Health en þar kemur fram að vísindamenn hafi metið gögn í sjúkraskrá mæðra hvenær á meðgöngu paracetamól var tekið inn og síðan hvort að afkvæmin hafi síðar verið greind með raskanirnar.
Daily Mail fjallar um niðurstöðurnar og þar eftir haft eftir Dr. Diddier Prada, aðstoðarprófessor við Mount Sinai-spítalanna í New York að þar sem notkun paracetamóls sé afar útbreidd geti lítil áhættuaukning sem þessi haft verulegar lýðheilsulegar afleiðingar.
Hann leggur þó áherslu á að ófrískar konur eigi ekki að hætta inntöku lyfsins án samráðs við lækni. „Ómeðhöndlaður hiti eða verkir geta einnig skaðað fóstrið,“ sagði hann og bætti við að konur ættu alltaf að ræða öruggustu leiðina við heilbrigðisstarfsfólk og íhuga lausnir án lyfja þegar það er hægt.