Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í dag fram á gæsluvarðhald yfir konu sem talin er tengjast stuldi á hraðbanka Íslandsbanka í Mosfellsbæ á aðfaranótt þriðjudags. RÚV greinir frá.
Stolin grafa var notuð til að rífa burtu hraðbankann í heilu lagi og fara með hann á brott. Í bankanum voru 20 milljónir króna í reiðufé.
Í gær felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhald yfir manni sem lögregla grunar um hlutdeild í málinu. Lögregla tjáir sig ekki um framgang rannsóknarinnar en í frétt RÚV segir:
„Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að kona sem talin er tengjast málinu hafi verið handtekin og að lögregla hafi farið fram á gæsluvarðhald yfir henni í hádeginu. Dómurinn hefur ekki kveðið upp úrskurð. Tveir til viðbótar hafa verið handteknir í vikunni en báðum verið sleppt úr haldi, öðrum þeirra á miðvikudag og hinum í gær.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu um málið þar sem greinir frá gæsluvarðhaldi yfir konunni sem var handtekin:
„Kona á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðuð í gæsluvarðhald til nk. þriðjudags, 26. ágúst, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á þjófnaði á hraðbanka í Mosfellsbæ aðfaranótt 19. ágúst.
Rannsókn lögreglunnar er í fullum gangi, en frekari upplýsingar um málið verða ekki veittar að svo stöddu.“