Ráðning á innri endurskoðanda borgarinnar hefur dregist í hálft annað ár og staðgengill gegnt starfinu. Hildur segir að staðan sé óviðunandi og mikilvægt sé að ráða innri endurskoðanda sem allra fyrst eftir faglegum leiðum.
„Innri endurskoðandi er gríðarlega mikilvægur eftirlitsaðili fyrir okkur í borgarráði. Þegar upp koma alvarleg mál óskum við eftir úttekt hjá innri endurskoðun og þá skiptir máli að viðkomandi njóti fulls trausts og hafi verið ráðinn eftir faglegum og hlutlægum leiðum,“ segir Hildur við Morgunblaðið.
Morgunblaðið hefur eftir heimildum sínum að unnið sé að því hjá borginni að breyta reglum í þá veru að borgarráð annist ekki ráðningu á innri endurskoðanda heldur borgarstjóri sjálfur. Á sama tíma eigi hann þó að vera óháður í sínum störfum.
Hildur segir við Morgunblaðið að mikilvægt sé að ráðningarferlið hefjist sem fyrst.
„Þetta er enn eitt dæmið um stjórnunarvanda innan borgarkerfisins og er einn af þeim þáttum sem gríðarlega mikilvægt er að séu í föstum skorðum, svo tryggja megi að innri endurskoðandi njóti trausts allra borgarráðsfulltrúa. Til að úttektir hans séu hlutlausar og faglegar er grundvallaratriði að hann sé ráðinn eftir faglegum leiðum, en ekki handvalinn af borgarstjóra,“ segir Hildur við Morgunblaðið þar sem nánar er fjallað um málið.