Barnung stúlka sem hafnaði í sjónum við Reynisfjöru í dag var úrskurðuð látin. Lögreglan á Suðurlandi, sem fer með rannsókn á tildrögum slyssins, greinir frá þessu á Facebook.
Stúlkan var á ferð með fjölskyldu sinni, erlendum ferðamönnum, en faðir hennar og systkini lentu einnig í sjónum en komust á land.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og kom á vettvang upp úr kl. 15 í dag en tilkynning barst um atvikið kl. 14:40. Björgunarsveitir voru einnig kallaðar til og fannst stúlkan eftir skamma leit. Var hún flutt með þyrlunni á sjúkrahús en er sem fyrr segir, látin.