Átök brutust út í Söluturninum Hraunbergi í Breiðholti um áttaleytið á sunnudagskvöld. Myndbönd af atvikinu hafa verið í dreifingu á Facebook.
Maður einn sem býr í hverfinu lét ófriðlega inni í söluturninum en starfsmenn á staðnum snerust til varnar og fleygðu manninum á dyr. Handalögmál á milli mannanna héldu áfram á planinu fyrir utan söluturninn. Lögregla kom síðan á vettvang og handtók manninn.
Sigrún Kristín Jónasdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti atvikið í samtali við DV. „Það var verið að vísa honum út vegna hegðunar hans og þá urðu átök manna á milli. Hann var handtekinn. Þetta fór í hefðbundið ferli,“ segir hún en maðurinn var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.
Maðurinn sem í hlut átti er íslenskur en eigendur og starfsmenn söluturnsins eru frá Víetnam.