Pétur Geir Óskarsson segir að kona sem býr í húsnæði Félagsbústaða í Bríetartúni hafi sturtað ofan í sig lyfjum og barið sig með kúbeini og hamri. „Þetta var morðtilraun,“ segir Pétur Geir en hann komst undan árásarkonunni við illan leik.
„Ég var í íbúðinni hjá henni og hún var nýbúin að fá hundrað töflur af Rivotril, þær eru tveggja milligramma og ef þú myndir éta eina svoleiðis töflu þá færirðu í blakkát. Hún byrjar á að gefa mér tvær, svo bara stuttu seinna þá segir hún mér að opna munninn og loka augunum og sturtar upp í mig.“
Pétur Geir segir að stórar gloppur séu í minni hans þessa nótt vegna lyfjanna sem hann innbyrti, en: „Næsta sem ég man er að hún er að berja mig með kúbeini og hamri. „Hvað er að þér, ætlarðu að drepa mig?“ spyr ég og hún sagði: Já!“
Pétur Geir útskýrir að erindi sitt inn í íbúðina með konunni hafi verið að neyta með henni róandi lyfja en hann haldi töluvert til hjá kunningja sínum í annarri íbúð í húsinu. Þangað flýði hann undan árásarkonunni. „Ég bara rétt náði að hlaupa út á sokkaleistunum.“
Vegna „blakkátsins“ man Pétur Geir atburði næturinnar slitrótt en telur þó að hann hafi farið heim til sín og látið hringja þaðan á sjúkrabíl fyrir sig, en hann býr á stuðningsheimili í borginni. Hann varði nóttinni á bráðadeild Landspítalans en var síðan útskrifaður.
„Það stórsá á mér. Ég fékk rosalegt glóðarauga, það er aðeins að fara núna. Hvítan var alveg rauð í augntóftunum og brotin augntóftin. Ég var allur lurkum laminn í löppunum því hún barði mig í lappirnar og skrokkinn allan.“
Hann segist vera að jafna sig núna en árásin var framin að nóttu þann 7. ágúst síðastliðinn. „Ég er að verða þokkalegur núna,“ segir hann.
Konan sem um ræðir hefur nokkrum sinnum áður verið í fréttum vegna ófremdarástands í umræddri byggingu við Bríetartún sem Félagsbústaðir eiga og leigja íbúðirnar skjólstæðingum velferðarsviðs borgarinnar. Konan er sökuð um að halda öðrum íbúum hússins í heljargreipum ofbeldis, skemmdarverka, þjófnaða og hávaðaónæðis. Sjá hér.
Félagsbústaðir hafa nú tilkynnt konunni að riftun leigusamnings við hana sé yfirvofandi vegna brota á húsreglum. Þetta ástand vegna konunnar er hins vegar talið hafa staðið yfir í um tvö og hálft ár.
Þess má geta að sömu nótt og konan réðst á Pétur Geir er hún sögð hafa ráðist á annan karlmann í íbúð sinni. Kom lögregla á vettvang vegna þess atviks, sneri í burtu en kom aftur síðar um nóttina og handtók hana.
Vinasamband Péturs Geirs við konuna á sér langa sögu. „Við höfum þekkst mjög lengi, verið vinir lengi, en það hefur verið stormasamt. Ég talaði ekki við hana í nokkra mánuði, ég var nýbyrjaður að tala við hana aftur, en núna er ég aftur hættur að tala við hana.“
Aðspurður hvers vegna konan hafi ráðist á hann segir hann að hún hafi sakað hann um að stela af sér lyfjum. „Það getur vel verið, ég bara man það ekki, ég var í blakkáti og ég gæti alveg hafa stolið af henni lyfjum án þess að muna það.“
Hann segir að þó að oft hafi soðið upp úr í samskiptum þeirra hafi konan aldrei beitt sig viðlíka ofbeldi. „Ekkert í líkingu við þetta, ekkert nálægt þessu,“ segir hann.
Hann segist ætla að kæra árásina til lögreglu. „Ég fer líklega á morgun.“ Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki kært fyrr ber hann við trassaskap og óreglu.
Pétur Geir er háður róandi lyfjum og morfínskyldum lyfjum og var áður skjólstæðingur Árna Tómasar Ragnarssonar gigtarlæknis sem ávísaði um langt skeið reglulegum, takmörkuðum skömmtum af sterkum morfínlyfjum til fólks með fíknisýki. Árni Tómas var síðan sviptur leyfi til lyfjaávísana. Sjá hér.
Pétur Geir segir að líf hans hafi verið miklu betra þegar lyfjaskammtana frá Árna naut við. „Þá fékk ég þetta skammtað og þetta gekk langbest þegar þetta var svoleiðis. Núna er maður að harka á hverjum einasta degi að redda sér fyrir dópi.“
Sp: Með afbrotum?
„Nei, ég er lítið að brjóta af mér, ég er meira að gera fjölskylduna geðveika með betli.“
Sp: Ertu í meiri neyslu en þegar þú varst hjá honum?
„Það er engin regla á þessu þegar maður fær ekki skammtað, þá tekur maður bara því sem býðst.“
Hann segir að skömmtunin myndi forða honum frá því að lenda í aðstæðum eins og hér hafa verið raktar.
„Ef ég fengi skammtað morfín og róandi lyf þá þyrfti ég ekki að vera í samskiptum við þetta fólk. Ástæðan er bara til að ná mér í efni. Þetta voru eitthvað 50 manns sem voru að fá skammtað hjá Árna Tómasi og þegar hann missti leyfið þá varð allt brjálað í bænum, bara glæpaalda, rænd tvö apótek á einni viku. Þetta er bara rugl, allir í fráhvörfum og glæpir aukast mikið. Við erum á þessum lyfjum og erum ekkert að fara að hætta því, þó að einhver læknir hætti að skrifa upp á þá reddum við þessu einhvern veginn öðruvísi.“