Lögregla fundaði með foreldrum nemenda á Múlaborg og starfsfólki skólans í dag. RÚV greindi frá.
Ungur starfsmaður á leikskólanum situr í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot gegn barni sem er nemandi við leikskólann. Maðurinn er sagður hafa játað brotið í yfirheyrslu lögreglu.
Samkvæmt heimildum RÚV hafa foreldrar fengið þær upplýsingar að ekkert bendi til þess að maðurinn hafi misnotað fleiri börn á leikskólanum. Í fréttinni segir: „Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa foreldrar fengið þær upplýsingar að ekkert bendi til annars en að atvikið sé einstakt tilfelli. Maðurinn hefur þó starfað í leikskólanum í nokkurn tíma og á fleiri en einni deild.“
Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum rennur út á miðvikudag.