Brynjólfur Þorvarðsson, sem rekur hugbúnaðarfyrirtæki, telur möguleika og getu gervigreindar hafa verið stórlega ofmetna. Staðreyndin sé sú að margrómað spjallmenni IA geti ekki svarað einföldustu spurningum rétt.
Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísi.
„Nýjasta afsprengi gervigreindarbyltingarinnar, „eins og að vera með sérfræðing með doktorsgráðu“ getur ekki svarað einföldustu spurningum rétt. GPT 5 sem opinberað var með miklum látum í fyrri hluta ágúst mánaðar er vægast sagt misheppnað fyrirbæri sem hefur verið tvö og hálft ár í þróun og kostað 500 milljarði Bandaríkjadali. Þrítugföld fjárlög íslenska ríkisins og getur ekki talið hversu mörg b eru í orðinu rabarbari,“ skrifar Brynjólfur en hann telur það alrangt að gervigreindin eigi eftir að útrýma fjölmörgum störfum eins og spáð hefur verið. Meginástæðan sé sú að gervigreindin sé gjörsneidd skilningi:
„Þetta er auðvitað þverstæða – hvernig getur greind verið án skilnings? Svarið er auðvitað að gervigreindin sem verið er að básúna út um allar trissur þessi dægrin er ekki „greind“ frekar en reiknivél eða töflureiknir.
GPT 5 er þar engin undantekning. Spjallþumbar geta ekki lært, þeir geta ekki hugsað sjálfstætt, þeir hafa engan skilning á raunheimum, á tíma og rúmi, orsök og afleiðingu, efnisheimi eða heimi hugmynda og fræða. Þeir skilja nákvæmlega ekkert.“
Brynjólfur bendir á að notkun gervigreindar útheimti gífurlega mikla orku á tímum þegar eftirspurn eftir orku aukist sífellt.
Hann efast um að störf séu í hættu vegna gervigreindabyltingarinnar:
„Einu störfin sem eru í hættu eru störf sjálfskipaðra ráðgjafa og sölumanna gervigreindarinnar. Núverandi tækni getur ekki leyst af hólmi einföldustu störf og það er ekkert leyndarmál að svo sé, þrátt fyrir að maður gæti haldið annað af fréttum. Allir stóru tæknirisarnir eru með þetta á hreinu: Núverandi tækni er ekki nóg, en þeir eru í óða önn að eyða þúsundum milljarða Bandaríkjadala í að þróa „alvöru“ gervigreind sem mun án efa geta tekið að sér helming allra starfa eða meir eftir örfá ár. Vandinn er bara sá að þetta eru loforð án innihalds, framreiknaðar framfarir byggðar á þeim misskilningi að ef bara er eytt meiri peningi í stærri kerfi þá muni greind þeirra aukast stjarnfræðilega. GPT 5 átti að vera fyrsta staðfestingin á þessari framtíð en hefur í staðinn tekist að afsanna hana.“
Sjá ítarlega grein Brynjólfs hér.