Sigurður Ágúst Sigurðsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB), segir margt eldra fólk kjósa frekar að búa í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík til þess að það geti haft aðgang að bílakjallara og bílastæðum fyrir vini og ættingja. Fólkið snúi svo jafnvel aftur til Reykjavíkur til aðhlynningar síðar á ævinni.
„Þessi flótti eldra fólks er að valda tekjutapi hjá Reykjavíkurborg. Það er nógu mikið sjokk að þurfa að fara árlega skjálfandi á beinunum til sýslumanns til að láta endurnýja ökuskírteinið. Því fólk óttast að fái það ekki endurnýjun sé verið að svipta það frjálsræði.
Nú er það tíska hjá borginni að vera með 0,7 bílastæði á hvern íbúa í nýbyggingum. Þannig að ef íbúarnir vilja fá gesti og ættingja í heimsókn lendir fólkið í vanda með að fá bílastæði,“ segir Sigurður Ágúst í samtali við Morgunblaðið.
Sigurður Ágúst segir að Reykjavíkurborg muni skerða ferðafrelsi eldra fólks ef bannað verði að hafa bílakjallara í nýjum fjölbýlishúsum. Rakið er að arkitektar og húsbyggjendur hafa í samtölum við Morgunblaðið lýst áhyggjum yfir því að borgin hyggist takmarka uppbyggingu bílakjallara á Ártúnshöfða og í Keldnalandinu. Bæði hverfin eru hluti af þéttingu byggðar og þar gætu búið hátt í 20 þúsund manns.
Sjá má þessa þróun í nýbyggingum fjölbýlishúsa víðs vegar um borgina þar sem stæði fylgir ekki (hverri) íbúð, og jafnvel eru fá eða engin stæði í eða við húsið. Nefna má sem dæmi fyrirhugaða breytingu Laugavegar 77 í 28 íbúðir og ekkert stæði er í húsinu eða á lóð þess, Skipholt 1, fyrrum húsnæði Listaháskóla Íslands, sem búið er að breyta í 34 íbúðir, þar sem væntanlegum kaupendum er bent á að íbúar eigi rétt á íbúakorti til að leggja í nærliggjandi gjaldskyld stæði og einnig á ókeypis stæði í nágrenninu, og Heklureit með 82 íbúðum, þar sem 48 bílastæði eru í tveggja hæða bílakjallara. Húsið er fyrsti áfangi í uppbyggingu lóða á Laugavegi 168-176 og munu Eru hér aðeins nefnd þrjú dæmi af handahófi í nágrenni blaðamanns DV.
Sigurður Ágúst segir í samtalinu við Morgunblaðið Reykjavíkurborg skerða ferðafrelsi eldra fólks með því að banna að hafa bílakjallara í fjölbýlishúsum. Margir af eldri kynslóðinni fari ekki út þegar hálka er á vegum á veturna, göngustígar séu oft ekki nálægt húsum þó borgin salti og sandi þá.
„Það getur verið hamlandi þegar fólk þarf til dæmis að leita læknis. Það fylgir því ákveðið frelsi að vera á bíl.“