fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
Fréttir

Íslensk kona kynntist draumaprinsinum á stefnumótaforriti – ChatGPT staðfesti að svik voru í tafli

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 16. ágúst 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona á miðjum aldri sem verið hefur einhleyp undanfarin ár deildi með DV reynslu sinni af Smitten stefnumótaforritinu. Eftir nokkra daga þar sem lítið gerðist sendi myndarlegur maður henni skilaboð. Var draumaprinsinn kominn? Eftir nokkurra daga spjall fóru að renna tvær grímur á konuna, sem ákvað að grennslast betur fyrir með aðstoð gervigreindarinnar.

Frásögn konunnar og myndir fara hér á eftir.

Konan skráir sig á Smitten stefnumótaforritið. Konan er sjálfstæð, vel menntuð og í góðu starfi. Hún er að leita að félaga í langtímasamband en hefur ekki fundið rétta staðinn til að kynnast nýju fólki. Fyrstu dagarnir eru skrýtnir. Lítil viðbrögð við spjalli en fullt af tengingum. Og margir sem vilja kynnast henni. Það er ekki alltaf gagnkvæmt. Menn sem hafa ekki burði til að deila því hverjir þeir eru, hafa enga hæfileika til að meta útgeislun sína á myndum eða eru berir að ofan með sólgleraugu á öllum myndum eru líklega ekki efni í sálufélaga.

Svo gerðist þetta.

Dagur eitt:

Þið Kenn hafið fundið hvort annað!

Hún: Hæ. Hvers vegna situr þú uppi á BBVA byggingunni í Madrid (vísað til photoshoppaðrar ljósmyndar sem Kenn birti af sér í prófíl)

Hann: Æ, þetta var nú bara grín. Ég hef aldrei komið til Madridar. Spyr um eitthvað en hún afsakar sig og segist upptekin. Verði að fá að tala við hann daginn eftir. Hann segir það ekkert mál.

Dagur tvö:

Samtalið fer ágætlega af stað. Hver ertu og svo framvegis. Hann segist kanadískur arkitekt sem býr og vinnur í Sviss. Hann stingur upp á því að þau færi sig yfir á WhatsApp til að halda samtalinu áfram. Hún samþykkir. Hann sendir skilaboð á WhatsApp: Hello X. This is Kenneth here.

Hún: Roger.

Hann: Yes, Kenneth Roger. That is my full name.

Hún sendir honum fullt nafn og hann segir ohhh… þú verður að kenna mér að bera nafnið þitt fram þegar ég kem að heimsækja þig (!!!) Ég ætla í mánaðarleyfi fljótlega og langar að koma og heimsækja þig. Það verður gaman að koma til Íslands og alveg þess virði að koma og hitta svona aðdáunarverða og fallega konu eins og þig. En þú afsakar. Ég er að fara í gymmið. Spjöllum síðar.

Síðar sama dag fær hún mynd af einhverju sem verið er að steikja á pönnu. Spyr hvort þetta sé Saltimbocca því henni finnst augljóst að þarna eru á ferðinni bögglar (kálfakjöt?) sem vafðir eru inn í hráskinku.

Nei. Hann segir þetta stripsteak (!!) Þau spjalla um uppáhaldsmatinn, ferðalög og veiki frændi Kenneths berst í tal. Sá sem ættleiddi hann þegar hann var sex ára eftir að foreldrar hans voru dáin. Og engin önnur systkin. Eini ættinginn. Gamli veiki frændinn í Kanada. Allt sem Kenneth er í dag á hann gamla veika frændanum að þakka. Hann vildi að hann ætti systkin. Hún á nefnilega stóra fjölskyldu.

Hún deilir með honum upplýsingum um áskoranir sem hún hefur sjálf gengið í gegnum og hann svarar undir eins að hún hafi greinilega fengið harða lexíu í lífinu sem hafi gert hana að því sem hún er. Sterka og sjálfstæða og fólk ætti að vera þakklátt fyrir að hafa hana í sínu lífi. Hann bætir við að hann sjálfur kunni að meta heiðarleika og hlátur, djúpar samræður yfir kaffibolla eða óvænt road trip. Segir að kemistría sé mikilvæg en það sé tilfinningagreind, gagnkvæm virðing og góðvild líka. Hún tekur undir það og hann segist feginn hvað þau eigi margt sameiginlegt (!)

Um kvöldið sendir hann henni mynd af sér og býður góða nótt eftir að hann er lagstur á koddann.

… og sendir væmna kveðju morguninn eftir; „May you begin this day with a smile on your face, and with happiness for your soul to embrace. Good morning X.“

Stuttu síðar stutt video sem virðist tekið á skrifstofu þar sem hann snýr sér í hring á skrifborðsstólnum og blikkar hana  með skilaboðunum „Sending you a postitive energy from here. Hope your day will be amazing as you are.“

Mynd: Skjáskot úr myndbandinu.

Kenneth Roghers ákveður að keyra allt í botn í skjallinu og gullhömrunum þegar hér er komið sögu. Segir hana einstaklega fallega, vonar að dagurinn verið frábær að hún komist snemma heim úr vinnunni og hlakkar til að heyra frá henni. Hann segist ekki geta hætt að horfa á myndirnar af henni, hún sé svo falleg. Hann sé einstaklega heppinn maður að hafa hitt hana. Vonar að dagurinn gangi vel.

Hún spyr: Are you for real?

Hann tekur það mjög alvarlega og segist ætla að senda henni skilaboð af skrifstofunni morguninn eftir svo hún sjái að hann sé raunverulegur.

Dagur þrjú:

Kenneth sendir myndina sem hann var búinn að lofa.

Hér fara að renna á hana tvær grímur. Hún tekur allar myndirnar sem hann hefur sent og biður ChatGPT að greina þær. Gervigreindin skilar niðurstöðu. Það vantar allt „noise“ í þessar myndir svo annað hvort er búið að eiga mikið við þær eða þær eru búnar til af gervigreind. Miðinn sem hann heldur á er tölvugerður og ekki raunverulegur á myndinni. Áferðin á húð hans er líka furðuleg og bendir til þess að þetta séu annað hvort tölvugerðar myndir eða mikið búið að eiga við þær. (sjá niðurstöðu chatGPT neðar í þessu skjali) Heildarmat er að líklegt sé að þessar myndir séu af falsaðri netpersónu sem sé dæmigert fyrir s.k. „catfishing“ á netinu

Hún slær nafnið hans inn á samfélagsmiðlum. Ekkert. Hún gúgglar hann. Ekkert. Hún biður gervigreindina að finna hann í arkitektaskrám á netinu. Ekkert.

Dagur fjögur:

Á degi fjögur heldur hann áfram að segja henni hvað hann sé heppinn að hafa hitt hana. Það sé ekki á hverjum degi sem maður hitti einhvern sem fær mann til að hlakka til að tékka á skilaboðunum. Hún svarar ekki strax og hann sendir önnur skilaboð. Áhyggjufullur. Vonar að allt sé í lagi og dagurinn sé góður. Hún svarar seint og um síðir. Var upptekin og hún segir honum brandara af fyndinni vinkonu sinni. Hann svarar dauflega. „That´s interesting.“ Hún er líka farin að taka eftir smávægilegum ritvillum sem eru skrýtnar fyrir einhvern sem er fæddur og uppalinn í Kanada og því hvað svörin eru grunn og flöt. Næstum eins og það sé gervigreind að svara. Engin ástríða í neinu, bara flöt svör. Svona eins og hafragrautur. Hann sendir henni nýja mynd af sér. Hér er hann allt í einu kominn með mun síðara hár en hann var með morguninn áður og virðist hafa bætt á sig vöðvum líka yfir daginn.

Elsku kallinn. Svo þreyttur…og bætir við að nú sé knús frá henni það eina sem hann þurfi.

Hér settist hún niður við tölvuna og baunaði á hann spurningum. Hver væri hans saga, af hverju hann hefði flutt frá Kanada (og veika frændanum) og hverjir væru vinir hans. Svörin voru grunn og innihaldslítil. Hann var eini sonur foreldra sinna sem dóu þegar hann var tveggja og sex ára. Frændi sem bjó í Toronto ættleiddi hann og kenndi honum að verða góður maður. Hefur unnið víða um heim en viðskiptavinur leiddi hann til Sviss. Hann teiknar bæði heimili og atvinnuhúsnæði og er innanhússarkitektúr líka. Hann á samt enga vini lengur því konan hans (sem hann skildi við fyrir þremur árum) hélt framhjá með besta vini hans. Hann hafi því þurft að búa sér til nýjan og mjög þröngan vinahóp sem hann treystir en honum líði vel. Hann segir að þessi sára reynsla hans af lífinu hafi gert hann bæði sterkari og betri. Hún spyr hann út í heimsmálin og pólitík. Hann segist ekki hafa áhuga á pólitík en segir að hann voni að leiðtogar heimsins hafi burði til að leiða deilur til lykta. Segir að það líti út fyrir að Trump styðji Pútín (!!). Fyrir hann skipti mestu að styðja við fátæka og að hann styrki börn í Kambódíu til náms og borgi matargjafir til þeirra líka.

Hann vill augljóslega komast út úr þessari spurningakeppni og spyr hvað hún ætli að gera á morgun. Hún segir honum það og spyr til baka. Hvað er á þínu teikniborði? Hann sendir þrjár myndir, þ.m.t. eina af byggingu sem verið er að byggja. Segir að þetta sé verkefnið hans núna, hann ljúki því eftir tvær vikur og þá ætli hann að koma til Íslands og heimsækja hana. Hún segist ekki ætla að hitta hann fyrr en hún er búin að tala við hann á netinu. Hvort hann eigi ekki Facebook reikning til að nota Messenger fyrir myndsímtal því hana langi að heyra í honum röddina. Spyr hann líka um LinkedIn. Þar eru allir sem þurfa að eiga í samskiptum við heiminn. Svarið. Nei. Hann er ekki á samfélagsmiðlum. Var einu sinni á Facebook en er búinn að týna aðgangsorðinu. Hann geti nú samt kannað hvort hann komist inn á reikninginn.

Á sama tíma og hún er að renna myndunum sem hann sendi í gengum leit á Google og ChatGPT heldur hún samtalinu áfram og bætir við að þau geti þá bara notað TEAMS eða ZOOM til að tala saman. Hann segir að það gæti gengið um næstu helgi. Hún rennir símanúmerinu hans í gegnum skoðun á netinu líka. Svæðisnúmerið er í Bresku Kólumbíu í Kanada. Á austurströndinni. Ekki Toronto. Ekki hægt að staðsetja það nánar.

Þetta er dagur fjögur í skjalli og dramatískum lýsingum á meintri fegurð hennar, fallega brosinu, að hann sé við það að falla í yfirlið, hann geti ekki hætt að hugsa um hana og hvað hann sé heppinn að hafa hitt hana á netinu. Sendir henni hugljúfar kveðjur á morgnana og nokkur skilaboð yfir daginn. Hann er alltaf að hugsa um hana.

Og hún er búin að finna mynd af hálfbyggða húsinu, núverandi verkefni hans á Google Maps. (Hún setti einfaldlega myndina inn í Google Image leit. Fann mynd af sama húsi hálfbyggðu í umfjöllun í þýsku dagblaði frá 2020 og smellti á hana (sjá skjáskot hér neðar). Þar kom fram götuheiti (An der Seilerei 45219 Essen-Stadtbezirke IX, Þýskaland) sem hún sló inn í Google Maps og birti götusýnina.) Voila. Óvænt er það fullbyggt og búið að vera í einhvern tíma. Og ekki í Sviss.

Hún sendir honum skilaboð. Þú fyrirgefur Kenneth Roger en húsið sem þú segist vera að vinna í virðist fullbyggt og standa við götu í litlum bæ í Þýskalandi miðað við Google Maps?

Þögn.

Vatnsberinn Kenn (57) á stefnumótaforritinu Smitten, 183 cm, á engin börn en leitar eftir langtímasambandi og segist lesa bækur og spila á píanó, er ekki til. Nema þar auðvitað. Er hann Nígeríuprins í nýju gervi? Er hann rússneskur glæpamaður sem er að reyna að komast í bankareikninga einhleypra kvenna á Íslandi? Er hann kannski bara sveittur kall í úthverfi á Íslandi, sem leiðist? Við fáum líklega aldrei að vita það.

Hann virkaði hins vegar raunverulegur, myndarlegur, umhyggjusamur, ástríkur en pínu umkomulaus svona fjölskyldu- og vinalaus. Sem er góður eiginleiki í netsvindli.

Hér eru svo frekari skjáskot til að sannreyna söguna

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“
Fréttir
Í gær

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega
Fréttir
Í gær

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni
Fréttir
Í gær

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun
Fréttir
Í gær

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola