Misjafnar væntingar, en þó heilt yfir fremur litlar, eru gerðar um árangur af leiðtogafundi Putin og Trump í Alaska, sem á að hefjast eftir um klukkustund að íslenskum tíma.
Ein stærsta spurningin sem brennur á heimsbyggðinni varðandi fundinn er hvort leiðtogarnir semji um eftirgjöf Úkraínu á landi sem Rússar hafa hertekið að miklu leyti. Rússar hafa gert kröfu um að Krímskaginn og fjögur hernumin héruð í Úkraínu verði um alla framtíð undir stjórn Rússlands. Mörgum þykir sérkennilegt að leiðtogarnir geti samið um slíka niðurstöðu án aðkomu Zelensky Úkraínuforseta.
Á fundi í Moskvu með sérstökum erindreka Bandaríkjastjórnar í síðustu viku lagði Putin fram áætlun sem felur í sér að Úkraína afsali sér austurhluta Donbass-héraðsins sem er að miklu leyti hermuninn.
Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu fyrir viku sagði Trump að „skipti á landsvæðum“ myndu líklega eiga sér stað á milli Rússlands og Úkraínu sem hluti af friðarsamningum. „Við erum að horfa á svæði sem hefur verið barist um í þrjú og hálft ár, þú veist, margir Rússar hafa dáið. Margir Úkraínumenn hafa dáið. Svo við lítum á það en við erum í rauninni að líta á að fá eitthvað til baka og skipta á einhverju. Þetta er flókið.“
Á hinn bóginn hefur Zelensky, forseti Úkraínu, lýst því yfir að hann muni aldrei gefa Donbass-héraðið eftir til Rússa, segir að það myndi opna dyrnar fyrir Putin til að „hefja þriðju styrjöldina“ í Úkraínu. „Ég ætla ekki að gefa upp landið mitt því ég hef engan rétt til að gera það,“ sagði hann.
Trump sagði fyrr í dag er hann svaraði spurningum fréttamanna um borð í Air Force One forsetaflugvélinni, að hann ætlaði ekki að „semja fyrir Úkraínu“. Jafnframt lofar hann ekki að Bandaríkin ábyrgist öryggi Úkraínu. „Ég er að gera þetta til að bjarga mannslífum,“ sagði hann og ítrekaði fyrri ummæli um að það myndi hafa í för með sér refsingar ef Putin samþykkir ekki að stöðva stríðið.
Heimild: CNN