Rúmlega tvítugur starfsmaður leikskóla sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni er starfsmaður leikskólans Múlaborgar í Ármúla. Þetta herma heimildir RÚV. Fundað var vegna málsins með foreldrum barna á leikskólanum í morgun.
Mbl.is hefur síðan eftir lögreglu að maðurinn hafi verið handtekinn eftir tilkynningu frá foreldri barns á leikskólanum þar sem maðurinn starfar.
Tilkynning um málið barst lögreglu á þriðjudag og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í þágu rannsóknar málsins.
Rannsókn lögreglu á málinu er sögð vera á frumstigi og veitir hún ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.