Kári Jónasson, fyrrverandi fréttastjóri útvarps hjá RÚV og fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, gerir að umræðuefni þá tilhneigingu að birta andlitsmyndir af starfsfólki í auglýsingum frá fasteignasölum.
Kára þykir auglýsingarnar hafa þannig yfirbragð að engu sé líkara en verið sé að auglýsa eitthvað allt annað en fasteignir, til dæmis krullujárn, rakspíra og tannkrem.
Kári segir í pistli í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar:
„Ég furða mig oft á auglýsingum frá fasteignasölum, þar sem meiri áhersla virðist vera að sýna andlitsmyndir af starfsfólki viðkomandi fasteignasölu en sjálfar fasteignirnar. Þetta er held ég óþekkt í öðrum atvinnugreinum.Tökum t.d. Moggann þriðjudaginn 12.ágúst. Þar er á bls. 8 mynd af tveimur karlmönnum á fasteignasölu. Við fyrstu sýn gæti þetta verið auglýsing um rakspíra eða eitthvað þ.h., en þegar betur að að gáð er annar með alskegg, svo það passar ekki, en hinn brosir fallega. Ef við svo flettum á bls. 13 þá blasir þar við 5 dálka auglýsing af fjórum konum og tveimur karlmönnum frá fasteignasölu. Þær virðst vera að auglýsa krullujárn og þeir brosa bara fallega en með lokaðan munn, svo þetta er ekki tannkremsauglýsing. Ekkert um fasteignir bara verið að auglýsa krullujárn og rakspíra. Hvenær megum við vænta slíkra auglýsinga frá bönkum eða tryggingfélögum, eða hvað finnst ykkur.“