Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, snýr aftur úr veikindaleyfi þann 1. september, en hann hefur farið í gegnum erfiðar læknismeðferðir vegna krabbameins á undanförnum misserum.
Kjartan greinir frá þessu í einlægum pistli á Facebook-síðu sinni en hann greindist með krabbamein í júlí árið 2024. Hann taldi sig geta hafið störf í janúar á þessu ári en svo kom í ljós að hann hafði verið of bráður þrátt fyrir að meðferðin hafi gengið vel:
„Undanfarið ár hefur blásið á móti en eins og sum ykkar vita greindist ég með krabbamein í júlí 2024. Strax við greiningu hófst lyfjameðferð í töflu-, stera- og sprautuformi og 4 mánuðum síðar fór ég í veikindaleyfi frá vinnu vegna geislameðferðar á Landspítalanum. Allt gekk þetta vel og í lok janúar sl. taldi ég mig tilbúinn að hefja störf á nýjan leik. Það reyndist hins vegar ekki rétt. Ég var einfaldlega of bráður á mér og hef unnið að því að byggja mig upp andlega og líkamlega síðan þá með það að markmiði að geta tekist á við daglega lífið og verða fyllilega vinnufær að nýju.“
Kjartan lýsir yfir miklu þakklæti í garð þeirra aðila sem hafa leitt hann í gegnum meðferð og endurhæfingu, andlega og líkamlega:
„Á síðastliðnum mánuðum hef ég notið dyggrar aðstoðar sálfræðinga HSS og Ljóssins við Langholtsveg en einnig leiðsagnar við líkamlega uppbyggingu hjá Einari Inga Kristjánssyni, einkaþjálfara og eiganda AlphaGym. Þá hef ég sótt fræðslu hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélaginu Framför í Grafarvogi.“
Hann segir að vegferðin hafi verið lærdómsrík og hann þakkar stuðninginn frá dýpstu hjartarótum:
„Á þessari vegferð hef ég lært margt. Ég hef kynnst mörgu yndislegu fólki og ekki síst nýjum hliðum á sjálfum mér. Góð heilsa er það dýrmætasta sem við eigum á og mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda henni. Ég vil hvetja alla sem eru í svipuðum sporum til að kynna sér starfsemi Ljóssins við Langholtsveg. Þar starfar hópur engla í mannsmynd.
Ég er þakklátur bæjaryfirvöldum og samstarfsfólki fyrir þann stuðning og skilning sem þau hafa sýnt mér síðustu 13 mánuði og ekki síður þeim bæjarbúum sem hafa sent mér hlýjar kveðjur. Síðast en ekki síst hef ég notið ómetanlegs stuðnings Jónu minnar, fjölskyldu og nánustu vina. Frá dýpstu hjartarótum þakka ég ykkur öllum.“