Þorbjörg gerir umræðuna í kringum Gleðigönguna á laugardag að umfjöllunarefni á Facebook-síðu sinni, en það vakti athygli sumra þegar fánar Palestínu sáust víða.
Félagið Ísland-Palestína tók þátt í göngunni og var markmiðið að sýna samstöðu með hinsegin fólki í Palestínu.
Sitt sýndist hverjum um þetta en í umræðum á samfélagsmiðlum mátti sjá gagnrýni á þetta úr ýmsum áttum. „Ótrúlegt“ sagði til dæmis Hannes Hólmsteinn Gissurarson í færslu á Facebook-síðu sinni og benti síðan á að Ísrael væri eina ríkið í Miðausturlöndum þar sem samkynhneigð er í senn lögleg og viðurkennd.
„Á Vesturbakkanum, þar sem hegningarlög eru í gildi frá hernámstíð Jórdaníu, er samkynhneigð ekki ólögleg, en miklir fordómar gegn henni. Á Gasa svæðinu, þar sem hegningarlög eru í gildi frá umboðstíð Breta, varðar samkynhneigð allt að tíu ára fangelsi,“ sagði Hannes en fjörugar umræður fóru fram undir færslu hans.
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er síðan vikið að Palestínufánunum í Gleðigöngunni.
„Nú geta menn vitaskuld gagnrýnt Ísrael fyrir eitt og annað og haft samúð með málstað Palestínu þó að slík umræða sé oft á villigötum, en að blanda því inn í baráttu fyrir málstað samkynhneigðra eða hinsegin fólks er utan við öll mörk,“ sagði staksteinahöfundur og bætti við að eini fáninn frá þessum heimshluta sem hefði átt erindi í gleðigönguna hafi verið sá ísraelski, en alls ekki sá palestínski.
„Hvernig stendur á því að fólk sem berst fyrir réttindum þeirra sem í gegnum tíðina hafa löngum sætt mismunun, en gera það sem betur fer ekki lengur hér á landi, er svo blint á raunveruleikann að það kýs að nota gleðigönguna til að hampa Palestínu sérstaklega? Trúir fólkið því virkilega að þar sé draumaríki hinsegin fólks, eða er hatrið á Ísrael svona blindandi,“ spurði ónafngreindur staksteinahöfundur að lokum.
Í umræðum undir Facebook-færslu Þorbjargar leggja ýmsir orð í belg, til dæmis Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir.
„Það sem mér finnst mest galið við þetta er að fólk sem er svona á móti samstöðu hinsegin fólks við t.d. Palestínu talar alltaf um hvað er farið illa með hinsegin fólk þar – og eru þar með að gefa í skyn að okkur ætti að vera alveg sama að það sé verið að sprengja og svelta fólk því það gæti mögulega verið hinseginfóbískt,” segir hún og bætir við að þetta komi oftast frá fólki sem almennt séð talar aldrei fyrir réttindum hinsegin fólks og er jafnvel haldið hinseginfóbíu. „Írónían er bara svo hrópandi,” segir hún.
Undir þetta tekur Þorbjörg.
„Alveg steikt. Alltaf þetta „Farðu til Gaza og láttu henda þér fram af húsþaki“ þegar það væri nær lagi að segja „Farðu á Gaza og láttu Ísraelsher svelta þig, sprengja þig og skjóta þig með öllu hinu fólkinu á Gaza.“ Þyrfti að koma ansi mörgum í skilning um það að mannréttindi gilda einmitt um ALLT fólk.”