Steinar Smári Guðnason, meindýraeyðir hjá Meindýraeyði Íslands segir veggjalús vera að aukast hér á landi.
„Það er svoleiðis sprenging búin að vera að ég bara á ekki til orð yfir það hvað er búið að vera mikið af veggjalús. Það eru eitt til þrjú veggjalúsaútköll á dag. Fyrir um einu og hálfu, tveimur árum var svona eitt útkall á viku,“ segir Steinar í samtali við Morgunblaðið. Segir hann flest tilfelli á hótelum og gististöðum, en einnig séu mörg tilfelli í heimahúsum.
„Það góða við þetta kvikindi er að hún er svakalega staðbundin, hún er bara í rúminu og í um metra fjarlægð í kringum það og hvergi annars staðar. Það er aftur á móti ekki fyrr en fólk tekur upp spreybrúsann sjálft og byrjar að spreyja þá fyrst verður vandamál.“
Steinar segir að fólk eigi alls ekki að eitra sjálft fyrir vegglúsinni. Hún verði pirruð og reynir að flýja áhrifin af eitrinu og dreifi sér þannig bókstaflega um allt.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.