Þetta sagði Rachael Cummings, yfirmaður mannúðaraðstoðar Red Barnet samtakanna á Gasa, í samtali við Ekstra Bladet.
Hún er við störf í Gasa en hún hefur starfað við hjálparstörf í um 20 ár. Hún hefur upplifað mikið á þessum 20 árum. Meðal annars verið í Úkraínu, Banglades og Mósambík. En hún sagði að ekkert jafnist á við þann hrylling sem hún hefur upplifað á Gasa: „Ég hef unnið víða en þetta er á allt öðru stigi. Aðstæðurnar, sérstaklega fyrir börn, eru gjörsamlega skelfilegar. Daglega hugsa ég með mér að þetta geti ekki orðið verra en á hverjum degi versnar ástandið.
Hún sagði að mestu breytinguna á ástandinu á Gasa upplifi hún í tengslum við eitt af því sem Red Barnet standa fyrir, fyrir börn. Þetta kallast „Óskaskýið“.
Börnin skrifa þá eina ósk sem þau eiga sér. Rachael sagði að börn á Vesturlöndum óski sér venjulega efnislegra hluta á borð við tölvu eða gæludýr en börn á hamfara- og stríðssvæðum óski sér yfirleitt hreins vatns og matar eða að geta farið aftur í skólann.
Hún sagði að það geri börnin á Gasa líka en að undanförnu hafi orðið breyting á, skelfileg breyting. Þau eru byrjuð að óska þess að þau komist í Paradís eða upp í himininn þar sem pabbi þeirra eða mamma eru kannski. Þau viti að á himninum eða Paradís sé matur og vatn. „Þau glíma einnig við sjálfsvígshugsanir og þetta er ekki bara hjá einu eða tveimur börnum. Við höfum mjög miklar áhyggjur af mörgum börnum núna,“ sagði hún.