Donald Tusk, forsætisráðherra, skýrði frá þessu að sögn pólsku útvarpsstöðvarinnar Polskie Radio.
Fram kemur að Pólverjar hafi fengið einn aðila framseldan frá öðru landi. Hann er grunaður um að vera höfuðpaurinn í málinu.
Hin handteknu eru frá Rússlandi, Póllandi, Úkraínu, Belarús og Kólumbíu en sá er grunaður um að hafa kveikt í tveimur vörugeymslum í Póllandi.
Tusk sagði að málið sýni að hættan sem stafi af Rússlandi verði sífellt meiri.
„Þetta er tilraun til að raska jafnvæginu við landamæri okkar og lama öryggisþjónustu landsins með því að fremja skemmdarverk með íkveikjum og árásum,“ sagði hann og bætti við að allt væri þetta runnið undan rifjum Rússa.
Kólumbíski ríkisborgarinnar hefur nú þegar fengið dóm fyrir íkveikjur í Tékklandi. Hann á ævilangt fangelsi yfir höfði sér í Póllandi.
Talsmaður pólsku leyniþjónustunnar sagði að Kólumbíumaðurinn hafi verið þjálfaður af útsendara rússnesku leyniþjónustunnar og hafi meðal annars verið kennt hvernig á að búa til bensínsprengjur.