Margrét Halla Hansdóttir Löf sem ákærð hefur verið fyrir að verða föður sínum, Hans Roland Löf, að bana á heimili þeirra við Súlunes í Garðabæ, í apríl síðastliðnum, hafði samkvæmt ákærunni misþyrmt honum og móður sinni í um tíu klukkustundir, með höggum og spörkum, áður en Hans beið á endanum bana.
Þetta kemur fram í frétt Vísis sem hefur ákæruna undir höndum.
Fram kemur að Margrét sé einnig ákærð fyrir tilraun til að myrða móður sína. Samkvæmt ákærunni beiti Margét foreldra sína ítrekuðu ofbeldi mánuðina á undan.
Þurftu foreldrar hennar ítrekað að leita sér læknisaðstoðar vegna ofbeldis Margrétar. Greinir Vísir frá því að Hans hafi verið nýkominn heim eftir tveggja daga vist á sjúkrahúsi, vegna áverka af völdum Margrétar þegar hann lést.
Fram kemur einnig í frétt Vísis að Hans, sem var ný orðinn áttræður, hafi reynt að flýja heimilið daginn örlagaríka en hnigið niður og á endanum látist eftir árás Margrétar. Hafi hann verið með mörg brotin rifbrein, innvortis blæðingar og áverka um allan líkamann. Móðir Margrétar hafi í kjölfarið verið lögð inn á sjúkrahús með áverka víða um líkamann.
Málið gegn Margréti fer fyrir dóm í haust en hálfbróðir hennar, sonur Hans af fyrra hjónabandi, krefst miskabóta og þess að Margrét verði svipt arfi eftir föður sinn.