Margréti Höllu Hansdóttur Löf, 28 ára konu úr Garðabæ, var í gær birt ákæra héraðssaksóknara, þar sem hún er sökuð um brot gegn foreldrum sínum. Margrét hefur setið í gærsluvarðhaldi síðan 13. apríl en hún var handtekin 11. apríl í kjölfar andláts föður hennar, Hans Rolands Löf, tannsmiðs, en atvikin áttu sér stað á heimili fjölskyldunnar að Súlunesi í Garðabæ, þar sem Margrét bjó ásamt foreldrum sínum.
Ákæra í málinu verður ekki birt fjölmiðlum á næstunni en ekki er komin dagsetning á þingfestingu og líkur er á því að þinghald verði lokað.
DV hefur hins vegar vissar upplýsingar úr ákærunni. Þannig liggur fyrir að Margrét er ákærð fyrir manndráp á föður sínum og fyrir tilraun til manndráps gagnvart móður sinni. En til vara er ákært fyrir stórfelldar líkamsmeiðingar gagnvart foreldrunum.
Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, i samtali við DV. Karl Ingi staðfestir einnig að eldri bróðir Margrétar (og eina systkini hennar) geri einkaréttarkröfu í málinu um miskabætur upp á sex milljónir króna.
Aðspurður segir Karl Ingi að ekki séu aðrar einkaréttarkröfur í málinu. Liggur því fyrir að móðir Margrétar og ekkja Hans Rolands gerir ekki kröfur um miskabætur.