Lögreglan á Suðurnesjum varar fólk við því að hraunjaðarinn við eldgosið á Reykjanesi geti brotist skyndilega fram. Hraunbreiðan er nú skilgreind sem áhættusvæði og afmarkað er 25 metra svæði frá jaðrinum.
„Hætta er á því við hraunjaðarinn að þunnfljótandi hraun brjótist skyndilega fram og hraunjaðarinn sjálfur jafnvel hrunið. Veðurstofan mælir með því að öll nýja hraunbreiðan verði skilgreind sem áhættusvæði og afmörkuð,“ segir í tilkynningu Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Lögreglustjóri hefur ákveðið að 25 metrum frá hraunjaðrinum sunnanverðum verði afmarkað, þar sem jeppaslóðin endar. Almenningur er beðinn að ganga ekki lengur til vesturs en 100 metra frá endastöð vegslóðar. Svæðið sé vel afmarkað. Austan megin við hraunbreiðuna, við Fagradal, er afmörkunarsvæðið nokkrir metrar.
„Búið er að koma fyrir skiltum á svæðinu og eru skilaboðin skýr; ekki ganga á hrauninu. Útsýnisstaðurinn austan við hraunið hentar vel þeim sem vilja sjá gosið betur. Við biðjum almenning um að virða afmörkunarsvæðið og liðsinna okkar í að höfða til ferðamanna sem ætla sér út á hraunið. Þetta er sameiginlegt verkefni viðbragðsaðila og almennings,“ segir í tilkynningunni.