Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason veltir fyrir sér hvort það þurfi ekki að lækka verð á nýbyggingum hressilega. Framboð af slíkum eignum sé mikið en á sama tíma séu eignirnar dýrar, sjaldan með garði og engu útsýni.
Egill skrifar á Facebook:
„Nú hef ég lagt á mig að skoða á fasteignavef Vísis hvað er í boði af húsnæði vestan Elliðaáa. Ég sé ekki betur en að íbúðir í eldri húsum seljist nokkuð vel, kannski ekki síst þær sem eru minni, en hins vegar er ofboðslegt framboð af íbúðum á stóru nýbyggingarsvæðunum. Þær eru hreint furðulega dýrar – fermetrinn varla nokkurn tímann undir milljónkalli. Samt eru þær nær aldrei með garði, kannski bara svölum og undir hælinn lagt hvort þær snúa í suður, norður, austur eða vestur. Útsýnið er oft bara næsti veggur. Svo er kvartað undan því í fjölmiðlum að íbúðasala sé dræm. En þarf ekki bara að lækka verðið á þessari tegund húsnæðis allhressilega?“
Margir fylgjendur Egils taka undir með honum. Þessar eignir séu að nálgast verð sem þekkist í stórborgum á borð við New York. Eins séu íbúðirnar litlar, dimmar og ófjölskylduvænar. Í athugasemdum er bent á að barnaherbergin í þessum íbúðum séu gjarnan minni en 10 fermetrar og eins sé skápaplássi verulega ábótavant. Ein býr í nýrri íbúð og segist neyðast til að geyma þriðjung af eldhúsbúnaði sínum í geymslunni.
„Það er ekki einu sinni pláss fyrir jólatré,“ skrifar einn.
Eins er bent á að hér sé um íbúðir að ræða sem eru auglýstar sem lúxus en á sama tíma er þar lítil birta, þröngt milli húsa, lítið um græn svæði og fyrst og fremst engin bílastæði. Eins hafi reynsla síðustu ára kennt landsmönnum að nýjar eignir eigi það til að mygla hratt.
Fylgjendur eru þó ósammála um hvort að vandinn sé bundinn við þéttingarstefnu borgarinnar eða ekki. Sumir benda á að íbúðirnar séu áþekkar hvort sem um Reykjavík, Mosfellsbæ eða Hafnarfjörð er um að ræða. Aðrir benda á að nýbyggingar séu töluvert dýrari í borginni en í nágrannasveitarfélögunum.
Einn útskýrir að verðið eigi sér svo eðlilega skýringu. Milljón á fermetra hljómi dýrt en skoða þurfi þá tölu í því samhengi að byggingaraðilar borga 200 þúsund á fermetrann fyrir lóðina, kostnaður við byggingu, hönnun og jarðvinnu nemi svo um 600-700 þúsund fyrir fermetrann og loks sé fjármagnskostnaður um 100 þúsund fyrir hvern fermetra. Þar með sé milljónin útskýrð.