fbpx
Laugardagur 26.júlí 2025
Fréttir

Dóra og Einar tókust hart á – „Það þurfti að sprengja meirihlutann til að gera það“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. júlí 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, og Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn, tókust hart á um skipulagsmál á Bylgjunni í morgun. Einar sagði meðal annars að það hafi þurft að sprengja upp fráfarandi meirihluta í borginni – en hann sleit samstarfinu – til að meirihlutinn sæi að sér varðandi bílastæðamál. Dóra Björt harðneitaði því og leystust samræðurnar upp í að hvort talaði ofan í annað uns innslaginu var lokið og fréttir tóku við.

Tilefnið var könnun Prósents sem birt var í vikunni, um viðhorf fólks til til þéttingar byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar voru þær að 56% svarenda voru andvíg þéttingu byggðar og aðeins 26% hlynnt henni.

Dóra Björt sagði aðspurð að niðurstöðurnar kæmu ekki á óvart í ljósi neikvæðrar umræðu um þéttingu byggðar undanfarið. Hún segir þau mál sem hafa valdið deilum, t.d. staðsetning göngustígs í Árskógum, snúist ekki um þéttingu byggðar. Viðfangsefni sé gæði uppbyggingu:

„Ég hef svona tjáð mig um það að þétting hefur í síauknum mæli verið gerð að blóraböggli fyrir margt sem miður fer í skipulags- og byggingarmálum. Ég þannig svo sem gat alveg búist við því að viðhorf gegn þéttingu byggðar yrði tiltölulega neikvætt svona meðal flestra hópa. Við sjáum nú reyndar að í yngsta hópnum þá er fólk almennt jákvæðara og fleiri jákvæð en neikvæð og það kom mér sömuleiðis bara að einhverju leyti á óvart að þessi neikvæða umræða sem hefur beinst svona mikið gegn þéttingu byggðar, þó að ég haldi að það séu önnur mál sem eru þarna undir líka sem varða gæði fyrst og fremst.“ Sagði Dóra Björt að það vanti umræðu um gæði og það þurfi að huga að þeim til að tryggja góða borgarhönnun. Þetta snúist ekki um þéttleika byggðar: „Það er hægt að klúðra uppbyggingu í dreifðri byggð alveg eins og í þéttri byggð.“

Logi Bergmann þáttarstjórnandi benti Dóru Björt á punkta á borð við of fá bílastæði við hönnun nýbygginga, skort á sólarbirtu, að fólk byggi hvert ofan í öðru og græn svæði hyrfu. Dóra Björt sagðist hafa farið af stað með vinnu að borgarhönnunarstefnu sem sé sú fyrsta sinnar tegundar hjá borginni, „sem snýr einmitt að því að tryggja birtuna, tryggja samhengið, tryggja að húsnæðið falli vel að umhverfi sínu og tryggja að sé aðgengi að grænum svæðum og svo framvegis.“

Vantar stórar ákvarðanir

Einar sagði að enginn væri á móti gæðum í borgarhönnun og þetta væri aukaatriði í stóra samhenginu. Hann sagði að nú værum við að sjá gamlar glærusýningar Dags B. Eggertssonar um framtíðarborgarskipulag raungerast. „Það er húsnæðisvandi á Íslandi og hátt húsnæðisverð og skortur á íbúðum er að valda því að hér er meiri verðbólga en ástæða er til og fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkað og fólk flytur úr landi, flytur af höfuðborgarsvæðinu og þetta er mjög stórt samfélagsmein sem að við höfum rætt í kosningabaráttu eftir kosningabaráttu hérna á undanförnum áratugum. Þannig að það að byggja húsnæði er ekki bara svona eitthvað áhugamál stjórnmálamanna um það hvernig hverfin eiga að líta út og eitthvað svona, heldur er bara sko lykilatriði í íslensku samfélagi. Og þið heyrið það alveg á Dóru Björt að hún er mjög áfram um það og þessir flokkar sem að hún hefur verið í samstarfi við ætla sér ekki að hverfa frá þessari þéttingarstefnu sem hefur verið meginstefið í skipulagssýninni undanfarin ár og undanfarin kjörtímabil.

Það sem við höfum í Framsókn verið að segja er að við verðum að taka stærri skipulagsákvarðanir. Við erum að ráðast á stærri óbyggð íbúðasvæði eins og Úlfarsárdal og það þarf að byggja á Keldum líka, en það er ekki sama hvernig það er gert. Við höfum líka talað um að það verði að byggja á Geldinganesi af því það er framtíðar byggingarsvæði. Taka stóru ákvarðanirnar um það hvar og hvernig borgin á að byggjast upp og auðvitað er ekkert óskynsamlegt að byggja inni í borginni. Borgin er kannski dálítið eins og skógur, það falla tré, húsin verða gömul og eigendur þeirra vilja byggja eitthvað nýtt. Og eðlilega þurfum við þá að taka afstöðu til þess hvað á að byggja mikið í staðinn og svoleiðis og það er bara skynsamlegt líka miðað við samgöngur. Við erum að byggja hérna upp almenningssamgöngukerfi, það getur verið skynsamlegt að þétta byggðina aðeins í kringum þær til þess að það sé hér greitt aðgengi að þessum biðstöðvum sem eru þar og þetta er svona eitthvað sambland af mörgu en það gengur ekki að þetta sé eina stefnan. Og núna erum við að horfast í augu við það hvernig skipulagsákvarðanir fyrri kjörtímabila líta út í raunveruleikanum. Hingað til höfum við verið að horfa á glærusýningarnar umtöluðu frá Degi í Eggertsgötu þar sem að var verið að lýsa því hvernig borgin átti að byggjast upp og hvernig hún átti að líta út og nú er þetta að birtast. Og við sjáum það bara í þessari könnun að fólki líkar þetta ekki.“

Að breyta Reykjavík í útlenda borg

Einar sagði að Dóra Björt hefði barist fyrir því að eyða bílastæðum í borginni. Hún benti á að núverandi meirihluti ætlaði að rýmka bílastæðareglur og það væri verið að vinna að því.

„Það þurfti að sprengja meirihlutann til þess að gera það,“ sagði Einar og Dóra Björt svaraði: „Fyrirgefðu, það þurfti ekki að sprengja neitt til að mynda meirihluta til þess að gera þetta. Fólk kann bara að tala saman og finna lausnir ef það vill finna lausnir, frekar en að hlaupa bara eftir einhverjum skoðanakönnunum og huga að því hvernig þeir líta út.“

Einar sagði: „Það tengist málunum, ekki skoðanakönnun.“

Dóra Björt gerði grein fyrir því um hvað þétting byggðar snerist: „Það snýst um það að skapa borg með aðgengi að góðum innviðum, að skapa borg þar sem fólk getur nýtt almenningssamgöngur. Það er oft sama fólkið sem segir að það þurfi að gera betri almenningssamgöngur sem er samt að tala á móti þéttingu byggðar. En þessir hlutir fara saman og þetta er ekki bara eitthvað einkamál okkar hér í Reykjavíkurborg. Þetta er lifandi stefna á heimsvísu. Þannig að ef við horfum til borgar sem fólki líkar vel við eins og Kaupmannahöfn, þá er hún um þrettán sinnum þéttari borg heldur en Reykjavík. Þannig að fólki líkar nú mjög vel við að það er alveg gott.“

Einar sagði við þessu: „Það er alltaf verið að reyna að breyta Reykjavík í einhverja aðra útlenda borg. Við búum í Reykjavík“ – Dóra Björt sagði að verið væri að byggja upp Reykjavík eins og hentar henni og íbúum hennar.

Hlýða má á umræðurnar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefna á að reisa stöð fyrir þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í Ölfusi

Stefna á að reisa stöð fyrir þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í Ölfusi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eyþór ljósmyndari ætlar að kæra manninn sem skvetti á hann rauðri málningu – Árásarmaðurinn sýnir enga eftirsjá

Eyþór ljósmyndari ætlar að kæra manninn sem skvetti á hann rauðri málningu – Árásarmaðurinn sýnir enga eftirsjá