fbpx
Föstudagur 25.júlí 2025
Fréttir

Hannes ósáttur við vinnubrögð lögreglu eftir að rithöfundur braust inn til hans og stal af honum tölvu – „Allt málið var fáránlegt“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 24. júlí 2025 17:46

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus, segir viðbrögð og vinnubrögð lögreglu er rithöfundur braust inn á skrifstofu hans og stal frá honum tölvu hafa verið fáránleg.

Í Facebook-færslu um málið segir Hannes:

„Ég er því miður hræddur um, að núverandi lögreglustjóri í Reykjavík, Halla Bergþóra Björnsdóttir, sé ekki vanda sínum vaxin. Þegar bloggari á Stundinni sálugu (og höfundur smásagna í Tímariti Máls og menningar) braust inn á skrifstofu mína fyrir nokkrum árum og rændi tölvu minni, voru viðbrögð lögreglunnar eins og í hláturleik, farsa, Bleika pardusnum. Þetta var Clouseau rannsóknarlögreglumaður í öðru veldi.“

Maðurinn sem framdi innbrotið er ekki þjóðþekktur en var um tíma nokkuð virkur í bókmenntalífinu og fjölmiðlum. Eins og Hannes segir birti hann meðal annars efni í Stundinni og Tímariti Máls og menningar en auk þess gaf hann út nokkrar bækur. Maðurinn lenti síðan í miklum erfiðleikum og fíkniefnaneyslu. Hefur hann fengið nokkra dóma fyrir innbrot og þjófnaði en lítið borið á ritstörfum seinni árin.

Hannes ritar ennfremur:

„Lögreglan vissi, hver innbrotsþjófurinn var, en hann gat brotist þrisvar inn í Odda, þar sem skrifstofa mín var (eftir að honum hafði verið sleppt af Litla Hrauni). Og lögreglan hafði ekki upp á honum, fyrr en hann þurfti að mæta til hennar út af skilorði! Þetta var vægast sagt fáránlegt.“

Hann átelur jafnframt vinnubrögð lögreglu í málum sem tengjast mótmælum gegn hernaði Ísraelsmanna á Gaza og segir lögreglu draga lappirnar þegar hún ætti að grípa til aðgerða:

„Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur í tvígang reynt að komast hjá því að rannsaka augljóst mútu- og peningaþvættismál, þar sem sextíu milljónum króna var safnað til að greiða fyrir flutning Palestínu-Araba til Íslands. Arabískir öfgamenn hafa gert skólastarf í Breiðholti allt að því óbærilegt, en ekkert er aðhafst. Og núna blöskrar mér linkindin við arabískan ofbeldissegg, sem hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fengið að setjast að á Íslandi og er væntanlega á bótum frá okkur skattgreiðendum. Naji Asar, sem réðst á ljósmyndara Morgunblaðsins, hefur að sögn Iceland Review fengið dvalarleyfi fyrir 14 manns úr fjölskyldu sinni! Þetta hefði aldrei gerst undir stjórn þeirra Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra og Árna Sigurjónssonar í Útlendingaeftirlitinu.“

Vildi ekki að neinni vissi að hann hefði glatað tölvu

DV ræddi málið stuttlega við Hannes og tók hann fram að afbrotið hefði ekki verið af pólitískum toga. En hann er mjög hneykslaður á vinnubrögðum lögreglu í málinu:

„Lögreglan vissi það allan tímann hver þetta var en hún gat ekki haft upp á honum. Hann var víst forfallinn fíkniefnaneytandi. Hann braust inn hjá mér daginn eftir að honum var sleppt af Litla Hrauni. Allt málið var fáránlegt.“

Hann segist ekki hafa sagt frá málinu á sínum tíma, en brotið var framið fyrir nokkrum árum, vegna þess að hann vildi ekki láta vita að hann hefði glatað tölvu:

„Ég hef ekki sagt frá því fyrr en núna, því að ég vildi ekki, að neinn vissi af tölvu frá mér. En núna er svo langt um liðið, að áreiðanlega hefur öllu verið eytt út af henni. Það er það fyrsta, sem undirheimamennirnir gera. Þetta var ekki pólitískt innbrot.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefna á að reisa stöð fyrir þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í Ölfusi

Stefna á að reisa stöð fyrir þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í Ölfusi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eyþór ljósmyndari ætlar að kæra manninn sem skvetti á hann rauðri málningu – Árásarmaðurinn sýnir enga eftirsjá

Eyþór ljósmyndari ætlar að kæra manninn sem skvetti á hann rauðri málningu – Árásarmaðurinn sýnir enga eftirsjá