Tónlistarmaðurinn Gylfi Viðar Ægisson er látinn 78 ára að aldri. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Selfossi. Dóttir Gylfa, Selma Hrönn Maríudóttir, greinir frá andlátinu á Facebook.
Gylfi var einn afkastamesti tónlistarmaður íslenskrar tónlistarsögu og fór ætíð eigin leiðir. Á uppvaxtarárum sínum á Siglufirði fór hann ungur að stunda sjómennsku en fiktaði samhliða við ýmis hljóðfæri, þá einkum gítar og harmonikku. Hann hóf að leika með hljómsveitum á borð við Berki í Bolungarvík, Eymenn í Vestmannaeyjum og svo Tríó 72.
Hann fór snemma að semja tónlist og var lagið Í sól og sumaryl fyrsta lagið sem kom út eftir hann í flutningi hljómsveitar Ingimars Eydals. Lagið samdi hann í Lystigarðunum á Akureyri þar sem hann sat ásamt tveimur drykkjufélögum á heitum sumardegi árið 1971.
Eins má nefna sveitina Áhöfnin á Halastjörnunni sem Gylfi stofnaði árið 1980 en meðal þekktustu laga hennar voru Stolt siglir fleyið mitt og Ég hvísla yfir hafið. Ekki má svo gleyma einu þekktasta lagi Gylfa sem flestir Íslendingar þekkja vel – lagið Minning um mann sem kom út árið 1973 og ekki síður fræg voru lögin Jibbý jei og Sjúdderari rei.
Eftir Gylfa liggja líklega hundruð dægurlaga og mörg lög hans fjölluðu um íslenska sjómennsku. Sjómennska varð eins konar tákn Gylfa í gegnum árin og kom hann gjarnan fram með skipstjórahatt og í sjómannajakka.
Ítarlega umfjöllun um merkan feril Gylfa má lesa hjá Glatkistunni.