Hagfræðingur segir sveitarfélög á Íslandi vera alltof mörg, en þau eru 62 sveitarfélög, og mjög misjöfn að stærð og íbúafjölda, þau minnstu með undir 100 íbúa. Segir hann sveitarfélög þurfa að sýna ábyrgð og fækka þurfi sveitarfélögum eigi þau að geta tekist á við lögbundin verkefni sín, sem og frekari verkefni.
Gunnar Alexander Ólafsson hagfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum rekur í grein sinni að undanfarin 25 ár hafi verkefni færst frá ríki til sveitarfélaga, svo sem grunnskólamál og þjónusta við fatlaða.
„Samkvæmt lögum ber öllum sveitarfélögum að veita ákveðna þjónustu, en geta þeirra til þess er mismikil. Yfirleitt hafa stærri sveitarfélög meiri burði til að sinna lögbundnum verkefnum en þau minni.“
Gunnar, sem er með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði og mastersgráður í bæði opinberri stjórnsýslu og heilsuhagfræði, hefur fjölbreytta starfsreynslu, til að mynda úr stjórnsýslunni, þar sem hann hefur starfað hjá heilbrigðisráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Lyfjastofnun.
Gunnar segir að neðangreind verkefni sýni að sveitarfélög sinna mikilli og fjölbreyttri þjónustu:
Helstu útgjaldaliðir sveitarfélaga eru:
Útsvar sem er hluti af tekjuskattskerfinu, er stærsti tekjuliður sveitafélaga, auk tekna af fasteignasköttum af íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, sem hærri fasteignaskattar eru greiddir af og að auki fá sveitarfélög jöfnunarframlag frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
„Almennt má segja að því fámennari sem sveitarfélögin eru, því meira skiptir jöfnunarframlagið máli sem hlutfall af tekjum þeirra. Sveitarfélögin mega leggja á þjónustugjöld og gildir sama um þau og jöfnunarframlagið. Almennt eru þjónustugjöldin lægri hjá fjölmennari sveitarfélögum (með yfir 5000 íbúa) en hjá þeim fámennari. Til viðbótar þessu fá sveitarfélög tekjur af eignum og rekstri, eins og arðgreiðslur af fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga og sölu byggingarétta. Um fjármál sveitarfélaga má almennt segja að stærri sveitarfélög eins og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri eru yfirleitt betur stödd fjárhagslega vegna stærri skattstofna og fjölbreyttari tekna. Á móti eiga mörg minni sveitarfélög oft erfiðara með að mæta auknum kröfum um þjónustu og fjárfestingar. Almennt þurfa sveitarfélögin á öllum þeim tekjum að halda sem þeim stendur til boða til að geta sinnt sínu hlutverki. Það er ekki mikið svigrúm til lækkunar á kostnaði hjá sveitarfélögum.“
Gunnar segir að í ljósi ákveðinna krafna til sveitarfélaga sé því eðlilegt að skoða stærð þeirra og fjölda íbúa svo þau geti sinnt sinni ábyrgð og skyldum eins vel og vænst er.
„Af sveitarfélögunum eru 27 með færri en 1.000 íbúa, þar af 13 með færri en 500. Fjögur sveitarfélög eru með færri en 100 íbúa! Þrátt fyrir þessa staðreynd ber öllum sveitarfélögum að veita sambærilega þjónustu óháð íbúafjölda. Til dæmis þarf Svalbarðsstrandahreppur með um 500 íbúa að sinna sömu skyldum og Akureyri með 20.000 íbúa. Því er áhugavert að ef sett yrði krafa um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga væri 1.000, mætti fækka þeim um 27. Það gæti styrkt þjónustugetu þeirra og sparað verulegan kostnað,“ segir Gunnar og heldur áfram:
„Sveitarfélögin hafa kallað eftir því að fá að sinna ákveðinni þjónustu, sérstaklega nærþjónustu en áður en farið verður í að láta sveitarfélögin fá fleiri verkefni frá ríkinu, eins og t.d. heilsugæslu eða málefni aldraðra, er það mitt mat að sveitarfélögin þurfa að sýna ábyrgð og að þau séu þess verðug að takast á við frekari verkefni.
Lykill að þeirri vegferð er að fækka sveitarfélögum þannig að lágmarksíbúafjöldi hvers sveitarfélags verði aldrei minni en 1000 íbúar. Hingað til hafa sveitarfélögin haft stjórn á þessari þróun, en í ljósi þess að samfélög og þjónusta við íbúa verður æ flóknari á hverju ári, verða stjórnvöld að fara að krefjast þess að sveitarfélögin leysi þetta annars verður að gera þetta með lögbundnum hætti.“