Heimasíður hýstar á Íslandi hafa verið notaðar af svikurum til þess að auglýsa þyngdarstjórnunarlyf sem kallast Nixol. Þar að auki hafa nöfnum og andlitum bresks sjónvarpsfólks verið stolið til þess að auglýsa „lyfið“.
Fjallað er um málið í breska miðlinum Which? þar sem áhersla umfjöllunar er lögð á neytendavernd.
Blaðamenn Which? fundu að minnsta kosti 62 auglýsingar fyrir hið meinta þyngdarstjórnunarlyf Nixol. Auglýsingarnar voru gjarnan merktar breska sjónvarpsþættinum Dragon´s Den og stjórnendur þáttarins sjást á auglýsingunum. Dragon´s Den er vinsæll viðskiptaraunveruleikasjónvarpsþáttur á BBC sem á uppruna sinn í Japan.
Þegar nánar var að gáð sást að myndirnar af stjórnendum Dragon´s Den voru annað hvort stolnar eða falsaðar með gervigreind. Meðal annars myndir af Deborah Meaden, sem er vel þekkt í Bretlandi.
Ekki nóg með það þá voru sumar auglýsingarnar einnig dulbúnar sem fréttir frá breska dagblaðinu The Daily Mail. En The Daily Mail kom þar hvergi nálægt.
Í auglýsingunum segir meðal annars að fólk geti misst 12 kílógrömm á aðeins 2 vikum ef það notar þessa „öflugu lausn.“ Segir að varan hafi verið prófuð á meira en 29 þúsund konum og körlum. Lyfið sé 100 prósent náttúrulegt og hafi engar aukaverkanir.
Hér er hins vegar um svindl að ræða, svindl sem stjörnur þáttarins Dragon´s Den tengjast ekki á neinn hátt. Sara Davis, ein af stjörnum þáttarins, sagði að fjöldi fólks hefði haft samband við hana út af þessum auglýsingum vegna þess að andlit hennar er notað í þeim. Hún hafi aldrei gefið leyfi fyrir þessu og hafi leitað til lögmanna til að reyna að fá auglýsingarnar fjarlægðar.
Which? reyndi að hafa samband við Nixol sem svaraði engum fyrirspurnum í tölvupósti og símanúmer voru ótengd. Þeir aðilar sem eru til húsa á skráðu heimilisfangi Nixol kannast ekkert við að deila húsi með fyrirtækinu, höfðu aldrei heyrt minnst á Nixol.
Kafað var ofan í vefsíðurnar sem hýsa auglýsingarnar og kom þá upp skráð heimilisfang á Íslandi. Þetta er langt því frá að vera í fyrsta sinn sem svikahrappar fela slóð sína á Íslandi. Eins og DV hefur greint frá hafa margar svikasíður verið skráðar til húsa á Kalkofnsvegi í Reykjavík, það er hjá fyrirtækinu Withheld for Privacy, amerísku fyrirtæki sem nýtir sér frjálslynda netlöggjöf á Íslandi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur margoft fengið fyrirspurnir frá erlendum löggæsluembættum um starfsemina en telur sig ekkert geta gert í núverandi lagaumhverfi.
Í frétt Which? kemur fram að á vefsíðunum sé hægt að kaupa Nixol fyrir 55 pund á mánuði, það er rúmlega 9 þúsund krónur. Segir að líklegast sé um að ræða svokallaða „áskriftargildru.“ Á vefsíðunni Trustpilot komi fram athugasemdir frá fólki sem segir pillurnar ekki virka og það sé ekki hægt að fá endurgreitt.