Tveir kettir af sex í eigu íbúa við Tryggvagötu 4-6, þar sem mikill eldsvoði varð síðasta sunnudag, fundust dánir úr reykeitrun íbúðinni í gærkvöld. Vinkona íbúans staðfestir þetta í samtali við DV.
Þrír kettir sluppu ómeiddir úr eldinum en einn brenndist á loppunni. Er hann á batavegi (sjá mynd að ofan).
Eldsupptök eru ókunn en málið er í rannsókn hjá lögreglu. Eldurinn kviknaði í íbúð fyrir ofan veitingahúsið Steikhúsið en við slökkvistarf urðu skemmdir á veitingastaðnum og hefur hann verið lokaður síðan. Hann verður hins vegar opnaður á næstu dögum.
Málið er mikið áfall fyrir íbúann á margan hátt. Hann komst við illan leik út úr íbúðinni sjálfur og eftir urðu allar eigur hans, þar á meðal sími og greiðslukort. Hefur hann haldið til hjá vinkonu síðan þetta gerðist. Varðandi kettina sem fundust dánir í gærkvöldi segir vinkona hans (ekki sú sem hann heldur til hjá):
„Þeir dóu úr reykeitrun, annar þeirra fannst á venjulega svefnstaðnum sínum, hinn komst út en fór inn aftur, kannski til að sækja hinn.“ – Ekki var veittur aðgangur að íbúðinni fyrr en í gær vegna rannsóknarinnar.
„Annars er vinur minn bara dofinn, sjokkið ekki alveg komið ennþá og það versta er að hann er ekki að fá neina hjálp frá félagsmálayfirvöldum né áfallateymi. Hann er hjá vinkonu eins og er,“ segir viðmælandi DV.
Hún staðfestir að íbúðin hafi verið leiguíbúð en ekki félagsleg. Fyrir utan að hafa glatað tveimur köttum hefur maðurinn, sem fyrr segir misst aleiguna, og verið upp á hjálpsemi góðra vina kominn. Vinkona hans segir hann hafa lagt mikið til samfélagsins með sjálfboðaliðastarfi sínu:
„Hann er svo oft búinn að biðja um aðstoð hjá kerfinu en fær alltaf nei, samtímis er hann búinn að leggja svo mikið til samfélagsins, bæði í Facebook-grúppunni Hjóladót og sem sjálfboðaliði dýrverndarsamakanna Dýrfinnu. Hann gekk daglega um allan bæ til að leita að týndum kisum o.s.frv.“
Efnt hefur verið til söfnunar fyrir manninn, sem er nokkurn veginn allslaus eftir brunann, vantar meðal annars föt. Reikningsupplýsingar eru hér fyrir neðan: