Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt 43 ára gamlan karlmann fjölmörg brot, meðal annars ítrekað ofbeldi gegn foreldrum sínum.
Í ákæru taka brot mannsins gegn foreldrum hans til tímabilsins 1. janúar 2021 til 1. nóvember 2023. Er hann sagður „hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan
og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað heilsu og velferð þeirra með líkamlegu, andlegu og fjárhagslegu ofbeldi, sem og hótunum…“
Hann er meðal annars sakaður um að hafa skvett kaffi á móður sína og kallað hana hóru og ógeð. Einnig fyrir að hafa rifið hurð af eldhúsinnréttingu og brotið glös með því að henda þeim á gólfið.
Hann er sakaður um að hafa hrint föður sínum utandyra, fyrir utan heimili foreldranna, þannig að hann lenti á steyptum vegg og féll í jörðina. Er faðirinn hugðist hringja í lögregluna tók ákærði af honum símann og henti upp á þak. Hann braut einnig rúðu í bílskúr húsnæðisins með því að kasta múrsteini í gegnum hann.
Hann kúgaði ennfremur foreldra sína til að greiða fyrir sig leigubíl með því að hóta því að kasta múrsteini í gegnum gluggarúðu á heimili þeirra. Ennfremur segir um ofbeldi mannsins gegn foreldrum sínum:
„Með því að hafa, á tímabilinu 1. janúar 2021 til 1. nóvember 2023, ítrekað og endurtekið beitt A og B andlegu ofbeldi og viðhaft ærumeiðandi ummæli í þeirra garð, bæði í eigin persónu og í formi sms skilaboða, m.a. með því að kalla B mellu, hóru og beyglu, kalla A eigingjarna nöðru, segja A að hann gruni að hann sé barnaníðingur, segja A að hann voni að hann drepist sem fyrst, segja A og B að skjóta sig, segja þeim að fokka sér, segja þeim að fara til fjandans og krefjast þess margítrekað og endurtekið með mjög ágengum hætti að A og B létu hann fá peninga.“
Maðurinn er einnig ákærður fyrir líkamsárás við inngang Hótels Grásteins í Reykjanesbæ en þar sló hann mann tvisvar með krepptum hnefa í andlitið. Féll brotaþoli í jörðina, missti meðvitund og hlaut nefbrot.
Ennfremur er hann sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás við Atlantslolíu í Reykjanesbæ. Sló hann þar mann ítrekað í andlitið sem sat í ökumannsæti bíls, en hann var sjálfur í farþegasæti við hlið hans. Eftir að árásarþolinn hafði hrökklast úr bílnum ók hann bílnum á hann með þeim afleiðingum að hann hafnaði á vélarhlíf bílsins og síðan á framrúðunni. Hlaut hann töluverða áverka af þessu ofbeldi.
Maðurinn var ennfremur ákærður fyrir ýmis fíkniefna- og umferðarlagabrot.
Samkvæmt skoðun matsmanns er ákærði sakhæfur í skilningi laganna, þ.e. hann er fær um að stjórna gjörðum sínum á verknaðarstundu. Hins vegar stríði hann við flóknar geðraskanir og refsing er ekki talin hafa fælingarmátt ein og sér, án langtíma geðmeðferðar sé viðbúið að hann haldi áfram á sömu braut. Þess vegna sé brýnt að hann njóti þéttrar geðlæknismeðferðar og eftirlits af hálfu fagaðila.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi. Hann á að baki langan sakaferil sem nær allt aftur til ársins 1999.
Niðurstaðan var sú að maðurinn er dæmdur í 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann er jafnframt dæmdur til að greiða 750 þúsund krónur í miskabætur og rúmlega 2,1 milljón króna í málskostnað.
Dóminn má lesa hér.