Hvíta húsið tilkynnti í gærkvöldi að fulltrúi The Wall Street Journal fengi ekki að vera með í þeim hópi blaðamanna sem myndi fylgja Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í opinbera heimsókn til Skotland þann 25-29. júlí næstkomandi.
Ástæðan er meint falsfrétt miðilsins, að mati Trump, um samband hans við Jeffrey Epstein. Blaðið greindi frá því rétt fyrir helgi að Trump hefði sent níðingnum afmæliskort í tilefni af fimmtugsafmæli þess síðarnefnda árið 2003. Í kortinu hefði verið teikning, eftir Trump, af nakinni konu og var nafn forsetans skrifað á skaphárasvæði myndarinnar.
Trump brást illur við fréttinni og hótaði blaðinu málsókn.
Bandarískir fjölmiðlar hafa haft áhyggjur af því að Trump myndi sífellt ganga lengra í því að refsa fjölmiðlum fyrir fréttir sem eru ekki honum að skapa. Skemmst er að minnast þess þegar Associated Press var útilokað frá því að ferðast með forsetanum í byrjun árs á grundvelli þess að miðillinn hélt áfram að tala um Mexíkóflóa í stað Ameríkuflóa eins og Trump hafði fyrirskipað.
Blaðamannafélag Hvíta hússins hefur fordæmt ákvörðun Trump gegn The Wall Street Journal sem hefndaraðgerð og árás á tjáningarfrelsi