Kynnt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda áform Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um að komið verði á fót brottfararstöð fyrir útlendinga sem vísa á úr landi með því að leggja fram frumvarp til laga þess efnis. Fram kemur í samantekt um áformin að enn sem komið er sé ekki á þessu stigi málsins vitað hvað rekstur hennar muni kosta ríkissjóð.
Í stuttri kynningu á áformunum á vef stjórnarráðsins segir ráðherrann að Ísland sé í dag eina Schengen-ríkið sem ekki rekur brottfararstöð. Ítrekað hafi verið bent á að ekki sé forsvaranlegt að vista umrædda einstaklinga í fangelsum landsins. Með þessu séu tekin markviss skref til að ná betri stjórn á landamærum Íslands og tryggja að málsmeðferð í útlendingamálum sé í samræmi við Norðurlöndin.
Í kynningunni segir enn fremur að markmiðið með fyrirhugaðri brottfararstöð sé að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Schengen-samstarfinu með því að setja skýrar reglur um hvenær og að hvaða skilyrðum uppfylltum sé heimilt að vista einstaklinga á brottfararstöð. Stefnt sé að því að samræma íslenska lagaumgjörð og framkvæmd í útlendingamálum við Norðurlöndin.
Frumvarpið sjálft eða drög að því eru ekki lögð fram í samráðsgátt heldur skjal þar sem gerð er grein fyrir áformunum um fyrirhugað frumvarp og annað skjal þar sem áhrif þessara áætlana eru greind.
Í fyrrnefnda skjalinu eru raktir helstu hvatar að áformunum og þeirra er einnig getið í kynningunni á vef stjórnarráðinu.
Þegar kemur að fjármögnun stöðvarinnar segir hins vegar í skjölunum í samráðsgáttinni að ekki liggi enn fyrir hvað hún muni kosta. Við samningu frumvarpsins verði gert ítarlegt kostnaðarmat á starfsemi og rekstri brottfararstöðvar sem muni liggja fyrir í endanlegu mati á áhrifum með frumvarpinu. Við endanlegt kostnaðarmat verði litið til rekstrarkostnaðar sambærilegra úrræða í nágrannalöndum. Ríkislögreglustjóri starfræki úrræði fyrir einstaklinga sem bíða brottflutnings og sé sá kostnaður þegar fjármagnaður. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 sé tillaga um árlega og varanlega fjárheimild að fjárhæð 500 milljónir króna til reksturs brottfararstöðvar. Ekki sé gert ráð fyrir að ráðist verði í nýbyggingu til að hýsa brottfararstöð en gera megi ráð fyrir að einskiptiskostnaður hljótist af því að breyta húsnæði sem verði tekið á leigu, svo fullnægja megi öllum skilyrðum sem sett séu um öryggiskröfur og aðgengi.
Það er því óljóst á þessari stundu hvort að þessar 500 milljónir króna á ári muni duga fyrir rekstri brottfararstöðvar en það mun væntanlega skýrast þegar frumvarpið verður lagt fram. Hvort það verður fljótlega þegar þing kemur saman í haust eða síðar á komandi þingvetri kemur ekki fram í áðurnefndum skjölum í samráðsgáttinni en umsagnarfrestur um þau rennur út 5. ágúst næstkomandi.