Vopnað rán átti sér stað í Hlíðunum og þar ógnuðu tveir aðilar öðrum með eggvopni. Málið er nú í rannsókn. Eins var tilkynnt um þjófnað í verslun í Múlahverfi og um skartgripaþjófnað í miðbænum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Lögregla þurfti svo að sinna nokkrum útköllum vegna einstaklinga sem þóttu illa áttaðir.
Lögregla var kölluð til í dag eftir að illa áttaður aðili hafði komið sér inn á heimili fólks. Lögregla aðstoðaði viðkomandi við að komast heim til sín.
Önnur tilkynning barst út af illa áttuðum manni á gangi. Þegar lögregla hafði afskipti af viðkomandi reyndist hann þó hinn hressasti, þurfti enga aðstoð og hélt áfram göngu sinni.
Lögregla fór svo í aðra fýluferð eftir að tilkynnt var um aðfinnsluvert aksturslag. Lögregla hafði uppi á ökumanni og reyndist hann vera í lagi.
Eins barst tilkynning um æstan aðila sem var að eyðileggja hlaupahjól. Sá fannst ekki þrátt fyrir leit.
Einn var handtekinn eftir að vera staðinn að því að aka undir áhrifum fíkniefna og annar fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sviptur ökuréttindum.
Skráningarmerki voru fjarlægð af tveimur bifreiðum vegna trygginga og bifreið hafði verið ekið út af vegi í Garðabæ.