fbpx
Þriðjudagur 22.júlí 2025
Fréttir

Telur ESB-aðild ekki mikilvæga vegna öryggissjónarmiða

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 21. júlí 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsókn forseta framkvæmdastjórnar ESB hingað til lands í síðustu viku vakti mikla athygli og jafnvel deilur. Ekki síst þóttu forvitnilegar yfirlýsingar Ursulu von der Leyen um aukið samstarf Íslands og ESB á sviði varnarmála athygli, sem og fullyrðing þess efnis að ESB-umsókn Íslands sé enn í gildi.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, telur að NATO-aðild Íslands og tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin verði áfram en hornsteinar í vörnum Íslands og samstarf við ESB  á þessi sviði vegi minna.

„Það kom fram á blaðamannafundi Ursulu von der Leyen og Kristrúnar Frostadóttur að Ursula skilur að varnir Íslands hvíla á tveimur meginstoðum sem eru aðild Íslands að NATO og svo tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin. Talað var um þriðju stoð sem kallað var „EU Security and Defense Agreement.“ Mér skildist að búið væri að gera slíka samninga við Bretland, Noreg og Kanada. Mér skildist líka af fundinum að drög að samningi fyrir Ísland yrðu gerð á þessu ári. Það á eftir að koma í ljós hvernig þessi samningur lítur út, hvað hann inniheldur,“ segir Hilmar, sem sér ekkert athugavert við aukna samvinnu Íslendinga og ESB:

„Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við samvinnu við ESB varðandi t.d. netöryggi og eftirlit og varnir sem tengjast innviðum, t.d. köplum í sjó, en NATO aðild okkar og tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin skiptir okkur að mínu mati langmestu máli. ESB er með það sem kallað er „EU Mutual Defense Flause“ sem kveður nokkuð sterkt að orði. Talar um að aðildarríki verði að bregðast við árás á önnur aðildarríki „…by all the means in their power“ sem er sterkara orðalag en í 5. grein NATO sem segir eitt aðildaríki eigi að bregðast við árás á önnur aðildarríki „…as it deems necessary.“ Vandinn við ESB er hins vegar að sambandið hefur engan sameiginlegan her.“

Fengi Ísland að vera herlaust áfram?

„Bandaríkin hafa verið aðallandið á bak við NATO og þó komin sé þreyta í það samstarf eftir að Donald Trump komst til valda öðru sinni er ljóst að NATO samhliða tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin er áfram lykillinn að okkar vörnum. Lega Íslands er að verða mikilvægari ekki síst vegna vaxandi spennu á norðurslóðum og Bandaríkin hafa ekki áhuga á að önnur stórveldi hasli sér völl á Íslandi. Bandaríkin hugsa fyrst og fremst um sitt eigið þjóðaröruggi. Árið 2006 fór varnarliðið frá Íslandi, en á fyrra kjörtímabili Donald Trump var byrjað að uppfæra varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Trump sendi varaforseta sinn Mike Pence til Íslands árið 2019 sem undirstrikaði aukið mikilvægi Íslands í augum Bandaríkjanna.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar kemur fram að mótuð verði öryggis- og varnarmálastefna. Einnig er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi síðar en árið 2027. Fram kom að Ursulu von der Leyen telur að aðildarumsókn Íslands frá 2009 sé enn í gildi.

Ísland gekk í NATO 1949 og þá var Ísland herlaust land og svo er enn. Það á eftir að koma í ljós hvað svokallað „EU Security and Defense Agreement“ við Ísland mun innihalda, en gangi Ísland í ESB vakna ýmsar spurningar. Ljóst er að Bandaríkin vilja draga sig að miklu leyti frá Evrópu vegna uppgangs Kína í Asíu og þá eykst þrýstingur á ESB að stofna sameiginlegan her og/eða gera auknar kröfur á þjóðheri aðildarríkja. Hvaða krafa yrði þá gerð til Íslands? Ég er ekki viss um að við fengjum sömu undanþágu sem herlaust land innan ESB, sérstaklega ekki ef ESB kemur sér upp sameiginlegum her til lengri tíma litið þar sem ætlast væri til að öll aðildarríki taki þátt.“

Sér ekki þörf á ESB-aðild

Hilmar telur Ísland ekki hafa þörf fyrir ESB-aðild vegna öryggissjónarmiða, hins vegar séu góð samskipti við sambandið mikilvæg vegna viðskiptasjónarmiða:

„Ísland hefur mikla sérstöðu innan Evrópu vegna legu sinnar. Nú er spennan mikil milli ESB og Rússlands. Ólíkt hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum eigum við ekki landamæri við Rússland né liggur okkar efnahagslögsaga að þeirri rússnesku. Með öðrum orðum við höfum enga snertifleti við Rússland. Ég álít heldur ekki að rússnesk yfirvöld líti þannig á að við séum á þeirra áhrifasvæði, enn síður eru kínversk yfirvöld með slíkar hugmyndir. Við erum á verndar- eða áhrifasvæði Bandaríkjanna og það verður þannig áfram að mínu mati í fyrirsjáanlegri framtíð. Samskipti okkar við Bandaríkin hafa gengið vel áratugum saman og við höfum sögulega ekki átt í neinum deilum við Kína, og áður en Úkraínustríðið hófst voru samskipti okkar við Rússland, og þar á undan Sovétríkin, að mestu góð, t.d töluverð utanríkisviðskipti. Ég sé ekki mikla þörf á ESB-aðild vegna öryggissjónarmiða. Hinsvegar er ESB mjög mikilvægt fyrir okkur vegna utanríkisviðskipta og þess vegna skiptir miklu að eiga góð samskipti við sambandið og það hefði að mínu mati átt að vera aðalumræðuefnið í heimsókn Ursulu von der Leyen.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gosmóða frá eldgosinu nálgast höfuðborgarsvæðið – Getur valdið sleni og höfuðverk

Gosmóða frá eldgosinu nálgast höfuðborgarsvæðið – Getur valdið sleni og höfuðverk