„Þannig fór um sjóferð þá,“ segir Kjartan Páll Sveinsson trillukarl og formaður Strandveiðifélags Íslands sem lýsir yfir sárum vonbrigðum með að frumvarp ríkisstjórnarinnar um 48 daga strandveiðar hafi ekki komist í gegn fyrir þinglok. Kjartan veltir fyrir sér í grein sinni sem birtist hjá Vísi í dag hverjum þetta sé um að kenna.
Kjartan bendir á að ríkisstjórnin hefði getað staðið öðruvísi að málum, en hann játar þó að það sé auðvelt að vera vitur eftir á og að engan hafi órað fyrir málþófinu sem einkenndi þingstörf síðustu mánuði.
„Engan hefði órað fyrir fjandanum sem stjórnarandstaðan ætlaði að sleppa lausum. Miðað við þá tímalínu sem lagt var upp með hefði frumvarpið, undir venjulegum kringumstæðum, verið afgreitt á góðum tíma og við hefðum farið á sjó á morgun.“
Stjórnarandstæðingar hafi lýst yfir heilagri skyldu til að halda uppi málþófi og svo hafnað boði ríkisstjórnarinnar um að afgreiða strandveiðifrumvarpið fyrir þinglok.
„Þáðu þau það boð, þingmennirnir sem höfðu svo ógurlega miklar áhyggjur af okkur trillukörlunum? Ekki aldeilis.“
Ríkisstjórnin hafi gefið loforð sem var ekki hægt að standa við og vonandi læri hún lexíu af þessu máli. Ásetningurinn hafi engu að síður verið góður og megi skrifa aðkomu ríkisstjórnarinnar á klaufaskap og reynsluleysi sem sé slæmt en engin dauðasynd.
Stjórnarandstaðan beri meiri ábyrgð. Bendir Kjartan sérstaklega á orðræðu stjórnarandstæðinga í garð strandveiðisjómanna. Miðflokkurinn hafi haldið því fram að strandveiðisjómenn borgi hvorki skatta né gjöld og þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi tekið undir með þeim.
„Sjálfstæðisflokkur fabúleraði um að við öryrkjarnir í sjávarútvegi værum mikil ógn við byggðafestu, og undir þetta tóku Miðflokkur og Framsókn. Að lokum var búið að fara hring með rógburð og lygar í yfir 20 klukkutíma án þess að minnihlutinn sýndi á sér nokkuð farasnið.“
Strandveiðifélag Íslands hafi mætt á þingpallana til að fylgjast með umræðum um þinglok og hafi stjórnarandstæðingar stigið hver á eftir öðrum upp í pontu til að vorkenna strandveiðimönnum.
„Fólkið sem kallar vel launuð og eftirsóknarverð störf á landsbyggðinni efnahagslega sóun; sem snúa vistvænustu fiskveiðum sem völ er á í andhverfu sína og kallar þær ósjálfbærar; sem segja að eini hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins þar sem sjómenn ráða sér sjálfir sé ekkert annað en hobbý fyrir tannlækna í Garðabæ og öryrkja hafsins – þetta fólk ætlast nú til þess að við trúum þeim þegar þau setja upp hvolpaaugu og ljúga því að okkur að það beri hag okkar fyrir brjósti.“
Brotavilji stjórnarandstöðunnar hafi verið útreiknaður og einbeittur. Hún hafi tapað baráttunni gegn veiðigjaldafrumvarpinu og tekið reiði sína út á strandveiðifrumvarpinu.
Loks bendir Kjartan á sægreifana og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Stórútgerðin fái alltaf að njóta vafans og geti dælt peningum í lögfræðinga ólíkt trillukörlum.
Kjartan segir að hver geti dæmt fyrir sig um hver beri ábyrgð á að strandveiðifrumvarpið fór ekki í gegn. Kjörtímabilið sé eftir sem áður rétt að byrja og ætlar Kjartan sjálfur að geyma sinn dóm fram á vorið.