Myndir af hópi manna, svartklæddum og merktum í bak og fyrir, á rölti í miðbænum síðastliðin föstudagskvöld hafa vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Félagsskapurinn kallar sig „Skjöldur Íslands“ og er stofnaður til höfuðs „handónýtri“ stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum og til að „stemma stigu við því að vegið sé að íslenskum gildum.“
„Við höfum horft upp á og heyrt af níðingsverkum erlendra aðila sem markvisst hafa nauðgað, rænt fólk, ögrað siðferði og samfélags okkar. Í okkar huga segjum; Þetta er komið gott – hingað og ekki lengra!,“ segir í herópi eins meðlims á opinberri Facebook-síðu hópsins.
Ljóst er að mörgum netverjum var brugðið við myndirnar af göngu hópsins og heyrðust raddir um að merki hópsins og yfirbragð virtist allt að því fasískt.
Eins og áður segir hefur hópurinn stofnað Facebook-síðu sem nú telur rúmlega 200 manns. Einn af stofnendum hópsins, Sindri Daði Rafnsson, skrifar þar færslu þar sem hann lýsir áðurnefndu kvöldi. Þar segir hann hópinn hafa loks látið verða af þessari hugmynd og ákveðið að rölta niður á Ingólfstorg til þess að taka stöðuna á leigubílamarkaðinum, sér í lagi „erlendum leigubílstjórum sem komast upp með ótrúlegt hátterni og lítið sem ekkert er gert og hafa sumir áreitt og nauðgað stúlkum sem töldu sig geta treyst leigubílstjórum,“ eins og segir í færslu Sindra Daði.
Lýsir hann vonbrigðum sínum með lögregluna sem hafi verið meira á varðbergi gagnvar þeim heldur en meintum brotum leigubílstjóra og öðrum ógnum á Ingólfstorgi.
Í færslum á áðurnefndum Facebook-hóp kemur fram að Skildir Íslands fordæmi ofbeldi og að þeim stafi engin ógn. Hafa hins vegar netverjar margir bent á að ýnsir í hópnum eru með afbrota- og ofbeldissögu að baki og hafa hlotið þunga dóma. Til að mynda áðurnefndur Sindri Daði sem var árið 1999 dæmdur í sex ára fangelsi í Danmörku fyrir vopnað bankarán, þá á tvítugsaldri. Hann sneri hins vegar blaðinu við og hefur til að mynda boðið sig fram í alþingiskosningum.