Pólska sendiráðið á Íslandi varaði ekki við eldgosinu í Sundhnúkagígum fyrr en 12 tímum eftir að það hófst. Í Póllandi er óánægja og óvissa með hvort viðbragð utanríkisþjónustunnar sé nógu snöggt.
Greint er frá þessu í miðlinum Wiadomosci Gazeta.
Eldgosið í Sundhnúksgígaröðinni hófst um fjögur leytið aðfaranótt 16. júlí, það tólfta á Reykjanesskaga síðan árið 2021.
Það var hins vegar ekki fyrr en klukkan 15:27 sem pólska sendiráðið á Íslandi setti inn færslu á samfélagsmiðla til þess að vara pólska þegna við gosinu og greina frá auknu viðbragði íslenskra yfirvalda til verndar almenningi.
Engan Pólverja hefur sakað í eldgosinu en málið hefur vakið upp efasemdir um viðbragð pólsku utanríkisþjónustunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðbragðið er seint á undanförnum misserum. Nefnt er dæmi um að pólska utanríkisþjónustan hafi verið sein að uppfæra viðvaranir og tilkynningar varðandi stríð Ísrael og Íran.