fbpx
Laugardagur 19.júlí 2025
Fréttir

Birti játningu á Facebook um að hafa falsað íþróttamuni upp á tugi milljarða – Fannst síðan örendur stuttu síðar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. júlí 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áhrifamikill bandarískur safngripasali, Brett Lemieux, frá Westfield í Indiana, fannst látinn á heimili sínu á þriðjudag, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að lögregla framkvæmdi húsleit vegna gruns um svikastarfsemi í tengslum við sölu á fölsuðum íþróttaminjum. Lögreglan staðfesti síðar að Lemieux hefði svipt sig lífi með skotvopni.

Seldi falsaðar vörur fyrir um 50 milljarða

Lemieux var stofnandi vefverslunarinnar MisterManCave, sem var þekkt meðal safnara fyrir að bjóða upp á áritaða íþróttagripi og ýmsar minjar tengdum íþróttum. Í 1.200 orða færslu sem hann birti í Facebook-hópnum „Autographs 101“ snemma á miðvikudagsmorgni, játaði hann að hafa sett í umferð yfir fjórar milljónir fölsaðra safngripa og að velta fyrirtækisins hefði farið yfir 350 milljónir bandaríkjadala, eða um 50 milljarða króna,  frá því að hann hóf starfsemi sína fyrir meira en 20 árum.. Færslan hvarf  af netinu síðar sama dag þegar Facebook-aðgangur Lemieux var tekinn niður.

Í færslunni henti Lemieux einnig nokkrum samverkamönnum undir vagninn sem og upplýsti um hverjir hefðu kennt honum handtökin. Ljóst er að þeir aðilar eru í verulegum vandræðum eftir uppljóstrun falsarans stórtæka.

Brot af færslu Lemieux

Seldi á lægra verði en sambærilega muni

Íþróttasafngripabransinn virkar þannig að til þess að auka verðmæti vörunnar, sé það árituð treyja, áritaður bolti eða árituð mynd geta eigendur gripanna fengið vottunarfyrirtæki til að staðfesta uppruna gripsins, hvort að áritunin sé ekta og ekki síður ástand vörunnar. Það skapar traust milli kaupenda og seljenda og hækkar eðlilega virði gripsins ef einkunninn er góð.

Í færslunni lýsti Lemieux ítarlega hvernig hann falsaði vottunarmerki og ýmiskonar vörur frá stærstu fyrirtækja í bransanum – þar á meðal Panini, Fanatics, Tri-Star, James Spence Authentics og Mill Creek Sports.

Til þess að selja vörur hratt og vel í miklu magni seldi hann falsanirnar á lægra verði en sambærilega muni og hagnaðist umtalsvert á þeirri aðferð.

Hagnaðist gríðarlega á andláti Kobe Bryant

Mestu uppgripin hjá Lemieux var átakanlegt andlát körfuboltagoðsagnarinnar Kobe Bryant sem lést í þyrluslysi árið 2020. Segir Lemieux að hann hafi komið um 80 þúsund fölsuðum munum á markaðinn eftir slysið og hagnast ótæpilega enda var eftirspurnin gríðarleg.

Lemieux segist iðulega hafa íhugað að hætta siðlausri iðju sinni en tekjurnar hafi hins vegar verið „of góðar til að hafna“.

Í fréttum erlendra miðla af málinu kemur fram að þeir sem lifa og hrærast í íþróttaminjabransanum hugsi Lemieux þegjandi þörfina.

„Hann hefur stundað þetta í áraraðir og lækkað verðmæti áritaðra muna. Áhrifin á verðmæti muna með áritunum frá Tom Brady eru veruleg vegna þessa einstaklings,“ er haft eftir Steve Grad, sérfræðingi í íþróttaminjum.

Andy Albert, eigandi Indy Card Exchange, sagði í viðtali við WRTV að síminn hjá sér hefði „hrokkið í gang alla nóttina“ eftir fréttirnar.

„Þetta er skelfilegt. 99% í greininni vinna heiðarlega, en eittt skemmt epli getur eyðilagt alla tunnuna. Þetta mun hafa áhrif á þennan bransa næstu ár,“ segir Albert.

Íþróttaminjabransinn er gríðarlega stór, sér í lagi í Bandaríkjunum. Talið er að árleg velta hans nemi um 40 milljörðum dala árlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ósátt við rukkunaraðferð Bílastæðasjóðs: Sótti systur sína og var sektuð meðan hún beið

Ósátt við rukkunaraðferð Bílastæðasjóðs: Sótti systur sína og var sektuð meðan hún beið
Fréttir
Í gær

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans