Þann 9. ágúst árið 2021 varð umferðarslys í Mosfellsbæ þegar létt bifhjól og bíll rákust saman. Bílstjórinn var undir áhrifum fíkniefna og réttindalaus.
Ökumaður bifhjólsins var 14 ára gamall en hann var með tvo farþega á hjólinu á svipuðum aldri. Ökumaður bifhjólsins hlaut opið lærleggsbrot og gekkst undir aðgerð. Hann gekkst síðan rúmu ári síðar undir aðra aðgerð þar sem nagli var fjarlægður úr lærlegg þar sem hann olli honum óþægindum. Hann fór fram á bætur frá VÍS, þar sem ökutækjatrygginga bílsins var. Byggði hann á því að hann hefði orðið fyrir bæði tímabundnum og varanlegum skaða vegna slyssins.
VÍS hafnaði bótaskyldu þar sem pilturinn hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að ferðast með farþega auk þess sem hraðatakmörkun hjólsins hefði verið rofin en talið er að hjólið hafi verið á 38 km/klst. hraða þegar slysið varð. Með hlaðatakmörkun átti hjólið ekki að komast hraðar en 25 km/klst.
Dómurinn taldi að ekki væri fullsannað að ökumaður bifhjólsins hefði farið hraðar en 25 km/klst. Hins vegar taldi dómurinn að hann hefði ekki kannað nægilega vel aðstæður áður en hann ók inn á gatnamótin og þar stefnt sjálfum sér og tveimur farþegum í hættu. Hafi hann því átt þátt í að slysið varð. Hins vegar bendi skýrslur farþega fyrir dómi til þess að bíllinn sem þau rákust á hafi verið á nokkuð miklum hraða.
Er það mat dómsins að pilturinn skuli bera tjón sitt sjálfur að einum þriðja hluta. Er viðurkenndur réttur hans til greiðslu bóta að tveimur þriðju hlutum ábyrgðartryggingu bílsins hjá VÍS tryggingum hf. VÍS þarf jafnframt að greiða 1,5 milljónir í ríkissjóð.
Dóminn má lesa hér.