Donald Trump, hefur verið greindur með langvinna bláæðabilun eftir að bólga sást í neðri hluta fóta hans síðustu vikur. Þetta kom fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu .
Trump, sem er 79 ára, gekkst undir ítarlega skoðun sem innihélt æðarannsóknir með ómskoðun, samkvæmt yfirlýsingu frá lækni forsetans, Sean Barbabella. Karoline Leavitt, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, las upp úr minnisblaði læknisins á blaðamannafundi.
„Ómskoðanir á báðum fótleggjum leiddu í ljós langvinna bláæðabilun (ICD-9), sem er algengt ástan, sérstaklega meðal fólks yfir sjötugt,“ sagði í tilkynningunni.
Trump hafði sjálfur tekið eftir vægri bólgu í fótleggjum undanfarnar vikur og leitaði til læknis í kjölfarið. Sérstaklega er tekið fram í tilkynningunni að engin merki hafi fundist um blóðtappa eða sjúkdóma í slagæðum, og öll blóðpróf voru innan eðlilegra marka. Þá sýndi hjartaómskoðun enga vísbendingu um hjartabilun, skerta nýrnastarfsemi eða aðra kerfisbundna sjúkdóma.
Langvinn bláæðabilun er ástand þar sem lokur í bláæðum virka ekki eðlilega, sem getur valdið því að blóð safnast upp í fótum. Einkenni geta verið bólga í ökkla og fótleggjum, krampi, sársauki eða jafnvel breytingar á húð. Um 150.000 manns greinast árlega með ástandið og tíðnin eykst með aldri. Meðferð felur yfirleitt í sér lyf eða aðgerðir í alvarlegri tilvikum.
Leavitt tjáði sig einnig um marbletti sem hafa sést á höndum Trump og sagði þá vera afleiðingu „tíðra handabanda og notkunar á aspiríni.“