Bitcoin hefur hækkað mjög mikið í verði síðan það kom fyrst fram á sjónarsviðið. Dæmi eru um að Íslendingar hafi tapað miklum fjármunum á því að týna gömlum bitcoin veskjum.
Umræða um málið fer nú fram á samfélagsmiðlagrúbbunni Fjármálatips. En þar lýsa nokkrir Íslendingar því að hafa glatað aðganginum sínum af bitcoin veskjum sem þeir keyptu fyrir löngu síðan og eru nú orðnar mjög verðmætar.
„Mig langar að vita, hjá þeim sem þekkja til, hvort það sé einhver möguleiki á því að komast í BITCOIN sem keypt var á upphafsárum þess?“ spyr upphafsmaður umræðunnar. En bitcoin kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2008.
„Ég keypti 1,25 btc a sínum tíma. Var með rafrænt veski í tölvunni. Síðan eru liðin mörg ár. Margoft búinn að skipta um tölvur og allt týnt. En, ætti þetta ekki að vera sjáanlegt einhvers staðar,“ segir hann í von um að komast í fjármunina. Ekki að furða því um er að ræða um það bil 18 milljónir króna.
Annar lýsir enn sorglegri sögu og virðist vera úrkula vonar um að komast í fjármunina.
„Ekki nema þú finnir veskið, ég einmitt á 7 btc einhvers staðar er það er ekki fræðilegur að finna það,“ segir hann. En 7 bitcoin jafngildar um 100 milljónum króna á núvirði.
Eru flestir á því að þetta sé einfaldlega glataður peningur. Það sé ekki hægt að komast í þessi veski.
„Neibb…engar líkur að recovera þetta,“ segir einn. „Nei, það er ekki sjáanlegt neins staðar, bara horfið. Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að bitcoin er gjörsamlega tilgangslaust rusl,“ segir ein kona.