Breskir vísindamenn hafa staðfest að átta börn hafi fæðst þar í landi með erfðaefni frá þremur einstaklingum en tilgangurinn var sá að koma í veg fyrir alvarlega hvatberatengda sjúkdóma sem erfast frá móður til barns og gera það að verkum að nýburar, sem af þeim þjást, geta dáið nokkrum dögum eftir fæðingu.
Hvatberar eru einskonar örsmá orkuver fruma og ef þeir eru gallaðir getur það valdið alvarlegum veikindum – þar á meðal heilaskaða, hjartabilun, blinda og dauða. Um eitt af hverjum 5.000 börnum fæðist með slíkan sjúkdóm.
Aðgerðirnar, sem fóru fram á Newcastle Fertility Centre, byggja á því að sameina egg og sæði foreldranna með öðru eggi frá heilsuhraustri konu. Þar með fá börnin meginhluta erfðaefnis síns frá móður og föður, en einnig örlítið brot – um 0,1% – frá gjafakonunni, sem virðist tryggja að heilbrigðir hvatberar taki yfir þá gölluðu.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Átta börn hafa fæðst heilbrigð, fjórir strákar og fjórar stelpur, og náð þroskamörkum sínum. Engin þeirra sýna merki um hvatberasjúkdóm, þó eitt barn hafi fengið meðferð við hjartsláttartruflunum og annað fengið flog sem hurfu sjálfkrafa. Hvorugt tilfellið tengist að öllum líkindum meðferðinni.
Aðgerðirnar eru þó ekki með öllu óumdeildar og sumir lýst áhyggjum sinum í þróun í átt að „hönnunarbörnum“.