Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur tekið fyrir má aðila sem taldi reglur Vinnumálastofnunnar um úthlutun desemberuppbótar ósanngjarna.
Viðkomandi aðili þáði atvinnuleysisbætur frá júní 2023 til og með oktober 2024, en þá hafði einstaklingurinn fengið vinnu og hóf hann störf þann 1. nóvember.
Hann hafði þó aðeins unnið hjá nýjum vinnuveitanda í mánuð þegar desember með öll sín útgjöld reið í garð. Þá hafði hann samband við Vinnumálastofnun til að kanna hvort hann ætti ekki rétt á desemberuppbót í ljósi þess að hann hafði verið í atvinnuleit mikinn meirihluta ársins. Vinnumálastofnun sagði nei. Reglurnar væru skýrar, samkvæmt reglugerð um desemberuppbót ættu þeir rétt á desemberuppbót sem hefðu staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2024 og hefðu verið skráðir án atvinnu í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu. Aðilinn í þessu máli hafi ekki staðfest atvinnuleit á tilgreindu tímabili, enda þá ekki atvinnulaus. Þar með hefði hann engan rétt til uppbótarinnar sem nam um 105 þúsund krónum.
Einstaklingurinn leitaði þá til kærunefndar og rakti að hann hefði verið atvinnulaus allt árið 2024 en fengið samning hjá atvinnurekanda 1. nóvember með ráðningarstyrk Vinnumálastofnunar. Því væri ekki sanngjarnt að aðili sem hefði verið allt árið í atvinnuleit fengi ekki desemberuppbót og þá sérstaklega í tilfellum sem þessum þar sem einstaklingur fær í lok árs vinnu í gegnum atvinnuúrræði Vinnumálastofnunar. Réttast væri að hann fengi hlutfallslega uppbót, fyrir 11 mánuði.
Úrskurðarnefndin tók undir með Vinnumálastofnun. Hér hefði einstaklingurinn ekki uppfyllt skilyrði fyrir desemberuppbót og ætti því ekki rétt til hennar. Ákvörðun Vinnumálastofnunnar var því staðfest.