Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að færa almannavarnastig af neyðarstigi á hættustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram en dregið hefur úr krafti þess síðan í morgun.
Búið er að opna fyrir aðgang íbúa Grindavíkur að bænum en bæði íbúar og starfsmenn sem dvelja inni á hættusvæði eru minnt á að þau gera það á eigin ábyrgð.
Í tilkynningu lögreglustjóra segir m.a.:
- Opnað hefur verið fyrir aðgang íbúa Grindavíkur að bænum.
- Íbúar og starfsmenn fyrirtækja dvelja inni á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.
- Lögreglustjóri mælir með því að fólk skoði hættumatskort Veðurstofu Íslands. Þá mælir hann með því að fólk kynni sér efni fréttatilkynningar ríkislögreglustjóra dags. 16. júlí.
- Unnið hefur verið að mótvægisaðgerðum innan hættusvæða sem felast m.a. í hækkun varnargarða, í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hafa sprungur verið girtar af.
- Opið er í Bláa lónið og Northern Light Inn. Flóttaleiðir eru um Bláalónsveg og Grindavíkurveg.
- Ferðamönnum og/eða almenningi (öðrum en íbúum) er ekki heimilt að svo stöddu að fara inn í Grindavík.
- Lokunarpóstar eru þrír. Á Grindavíkurvegi við gatnamót Reykjanesbrautar, á Suðurstrandarvegi við mót Djúpavatnsvegar og á Nesvegi rétt austan við golfvöll Grindavíkur.